143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er loksins hafin umræða um þetta kosningaloforð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og við erum komin með frumvarp. Við getum sem sagt hafið hina efnislegu umræðu út frá þeim leiðum sem ríkisstjórnin ætlar sér að fara. Í aðdraganda kosninganna var oft gefið í skyn að þetta yrði gert nánast strax eftir kosningar. Svo kom í ljós að svo einfaldur var veruleikinn ekki. Við fengum skýrslu með lúðraþyt í Hörpu í nóvember og núna í aprílbyrjun erum við loks komin með málið í hendur.

Þessi mál þarfnast ítarlegrar umfjöllunar því að þau snerta grundvallarkerfi í samfélagi okkar. Skuldabaggarnir sem lögðust á íslensk heimili voru gríðarlegir í kjölfar hrunsins. Það voru skuldir heimilanna sjálfra og skuldir fyrirtækja í landinu lögðust á landsmenn með þeim hætti að sum þeirra urðu gjaldþrota. Fólk missti umvörpum vinnuna og tók þannig á sig skuldabyrðina. Svo berum við öll skuldabyrði ríkissjóðs, ekki síst börn, eldri borgarar og konur sem vinna hjá hinu opinbera. Það eru hóparnir sem hafa kannski þurft að bera þyngstu byrðarnar, þeir sem reiða sig mest á velferðarkerfið og þeir sem vinna í því að halda velferðar- og menntakerfinu gangandi.

Ég stend ekki hér og harma það að einhverjar fjölskyldur fái léttari greiðslubyrði á mánuði. Því ber að fagna. En það sem mér finnst óþægilegt er að ég geri mér ekki með nokkru móti grein fyrir hversu mikið léttari greiðslubyrðin verður og hjá hverjum greiðslubyrðin léttist. Það er ekki af því að ég hafi ekki lesið nógu vel heima, herra forseti, það er af því að það kemur ekki fram í frumvarpinu. Ég á sem alþingismaður, sem fer með löggjafar- og fjárveitingavald ásamt hinum 62, að veita ráðherra heimild til að ákveða í ráðuneytinu hvernig hentar best að gera þetta svo að peningarnir dugi til og skaðinn fyrir ríkissjóð verði ekki of mikill. Eitt af þeim atriðum sem verður að skoða er hvort hægt sé að veita ráðherra slíka heimild. Þetta er ráðstöfun á ríkisfjármunum. Alþingi er ekki með opinn tékka því að fjárhæðin á að vera ákveðin en með opna leið til útfærslu. Síðan er þessari ríkisstjórn meira umhugað um eignarréttinn en ýmislegt annað. Þar eru þá líka leiðir. Það er óljóst með hvaða hætti á að fara inn í samninga og samningsréttinn. Ég ætla ekki að vera svefnlaus af áhyggjum yfir því en það er alltaf heppilegt að fara að lögum og stjórnarskrá. Nú kann að vera að þetta sé eitthvað sem geti gengið upp en það þarf að skoða mjög vel í nefndinni.

Við erum hérna að fjalla um annað tveggja frumvarpa. Þetta fjallar sérstaklega um séreignarsparnað og skattafslátt af séreignarsparnaði. Eins og ég sagði eru þetta engin smámál. Við erum að tala um eignatilfærslu þar sem við nýtum skatttekjur til að greiða niður skuldir sumra, ekki síst hátekjufólks. Við erum að tala um tekjutilfærslu og eiginlega kynslóðatilfærslu því að skatttekjur framtíðarinnar eru nýttar til að skapa eignir hjá ákveðnum hópum. Við erum að tala um að fara aftur inn í séreignarsparnaðarkerfið. Eftir því sem árin líða frá hruni, ef við ætlum að halda svona áfram, fer að líða að því að hugmyndin um séreignarsparnaðarkerfið lúti í lægra haldi. Ég ætla ekki að fara í grafgötur með það að ég var ekkert sérstaklega hrifin af því að fara inn í séreignarsparnaðarkerfið á sínum tíma eftir hrun. Það er líka ágætt að muna að fyrir fjórum árum var töluvert önnur staða uppi í samfélaginu. Þetta var leið til að fólk sem lenti í atvinnuleysi og ýmsum efnahagslegum hremmingum gæti bjargað sér í gegnum erfiðustu tímana með úttöku séreignarsparnaðar og á móti fékk ríkið skatttekjur.

Nú get ég ekki talað fyrir munn fólks um þessi mál en ég velti fyrir mér fólki sem hefur tekið út mikið af sínum séreignarsparnaði, jafnvel til að greiða inn á húsnæðislánin sín. Það er kannski ekki tilbúin að halda því áfram næstu þrjú árin þó að skattfrelsi verði í boði því að það vill líka spara til efri áranna og finnst það óheppilegt eða fólk getur það ekki af því að kjör þess eru þannig en hefur getað nýtt sparnað sem það átti inni. Þess vegna finnst mér út frá jafnræðis- og sanngirnissjónarmiðum að það fólk sem þegar hefur tekið út séreignarsparnaðinn sinn að einhverju leyti eigi að fá skattafslátt af þeim úttektum rétt eins og boðaður er nú, auðvitað þannig að það verði ekki umfram það sem hægt er núna. Maður getur tekið dæmi um fólk sem tók út séreignarsparnað 2010, 2011 og 2012. 2010 tók það út 300 þúsund og ætti þá rétt á skattafslætti vegna þess, sem færi þá að sjálfsögðu inn á höfuðstól lánsins, það færi ekki í vasa fólksins. 2011 tók það út 800 þúsund, þá ætti það rétt á skattafslætti vegna 500 þúsunda, og 2012 tók það út 400 þúsund og ætti þá rétt á skattafslætti vegna þeirrar fjárhæðar en gæti þá nýtt það sem það er ekki búið að nýta af þeim 1,5 milljónum sem er grundvöllur til skattafsláttar til að leggja inn á lánið á komandi tímabili.

Hitt eru afskaplega kaldar kveðjur að fyrst búið er að fara inn í séreignarsparnaðinn að nú verði breyting á leikreglum og þeir sem voru búnir að nýta sér þetta séu skildir eftir. Þetta finnst mér vera eitt enn atriði sem nefndin verði að skoða mjög vel. Hér er ég ekki að mælast til þess að fólk tvínýti skattafsláttinn. Þetta er bara ábending um að jafnt skuli yfir alla ganga sem hafa tekið þá ákvörðun eftir hrun að nýta séreignarsparnaðinn sinn til að greiða niður skuldir.

Skattfrjáls séreignarsparnaður. Það sjá það allir að skattfrelsi er þægilegt þegar það á við eigin buddu en það er vont fyrir ríkissjóð því að minni fjármunir verða til að sinna þeim verkefnum sem ríkið á að sinna. Það getur líka valdið því að upp komi almenn krafa um skattfrelsi á séreignarsparnaði. Af hverju á ég sem nýti séreignarsparnaðinn minn til að greiða inn á húsnæðislánið mitt að fá skattafslátt en fullorðna konan sem er að fara á eftirlaun tekur út séreignarsparnaðinn sinn og borgar af honum skatta? Er einhver sanngirni í því? Þetta vekur upp mjög margar áleitnar spurningar.

Ég vil taka það fram að ég er ekki að tala gegn því að fólk fái lækkun á skuldum sínum en ég er að tala gegn því að farið sé í aðgerðir sem eru ósanngjarnar gagnvart ákveðnum hópum sem fá ekki sambærilega fyrirgreiðslu úr opinberum sjóðum og þeir sem eiga jafnvel miklar eignir og hafa háar tekjur njóta í aðgerðum sem þessum.

Þá vil ég líka koma inn á fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að lækka lán sumra. Þá fer verðbólgan á skrið. Við vitum ekki hvað mikið en það eru uppi einhverjar áætlanir. Eitthvað var lagt fram á fundinum í Hörpu, einhverjar tölur sem fæstir trúðu á og Seðlabankinn hefur dregið í efa. Það fer enginn í aðgerðir eins og þessa án þess að það hafi áhrif á verðlag og verðlagsþróun. Þá hefur verið bent á: Nei, þú ert búinn að lækka skuldirnar og verðbólgan hækkar ekki á þeim hluta sem er búinn að lækka. — Nei, vissulega ekki, en verðbólgan veldur því að nettóáhrifin af lækkuninni verða minni en lagt var upp með. Þess vegna finnst mér slæmt að þessi frumvörp hafi ekki komið fram fyrr svo að hægt sé að rýna þau almennilega, greina þau almennilega og skoða hver áhrifin verði í raun og veru. Hér er talið að skattáhrifin á næstu árum verði 1–2,6 milljarðar árlega næstu þrjú, fjögur árin. Það gætu orðið alls 7,6 milljarðar á tímabilinu.

Þá vil ég minna hv. þingmenn á að það gekk mikið á til að setja svipaðar fjárhæðir inn í heilbrigðiskerfið. Þar var aldeilis skorið niður og nokkuð af fífldirfsku á lokametrunum. Það var skorið niður í Stjórnarráðinu sem er allt í lagi, því hver ætlar að verja embættismannakerfið sem er stjórnkerfi sem á að framkvæma í samræmi við lög og vinna að hagsmunum landsmanna? Þróunaraðstoðin. Þar mátti skera niður. Það var farið mjög víða inn þannig að 1–2,6 milljarðar hljómar ekki lítið þegar maður talar um þá í samhengi við hið svokallaða heimsmet en þegar við rifjum upp hvernig var að ná þessum milljörðum í fjárlagavinnunni þá var það ekki einfalt og kallaði á töluverðan sársauka.

Það er mjög mikilvægt að við fáum mat á áhrifum þessa frumvarps sem og hins á ríkisfjármálin og að stjórnarliðar sem og aðrir geri sér grein fyrir hvort það krefjist frekari fórna í fjárlagagerðinni. Það væri þá líka mikilvægt fyrir okkur hin sem sitjum hér og förum ekki með meirihlutavald að fá að vita hvernig ríkisstjórnarflokkarnir ætla að ná fram þeim sparnaði sem þarf á móti og það sé ein af forsendum þess að maður geti tekið ákvörðun um það hvort maður sé tilbúinn að styðja allan pakkann eða ekki, hvað hangi á spýtunni (Forseti hringir.) og hverjir eigi að taka á sig auknar byrðar til að hátekjufólk og (Forseti hringir.) stóreignafólk geti fengið gjöf frá ríkissjóði.