143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það kostulegasta við þessa aðgerð er að hún er sögð vera til að leiðrétta einhvern tiltekinn forsendubrest. En þegar betur er að gáð horfir aðgerðin algerlega fram hjá öllum gögnum sem liggja fyrir um það hverjir það voru raunverulega sem fengu þá helst á sig svokallaðan forsendubrest. Það hefur legið fyrir síðan í vinnunni 2010, þegar lagst var í umtalsverða vinnu til að greina þennan vanda, meðal annars í fjármálaráðuneytinu, að það eru einmitt þeir hópar sem hv. þingmaður nefndi, þeir sem keyptu á árabilinu 2004–2005 til 2008 og alveg sérstaklega þeir sem keyptu sína fyrstu íbúð þá, áttu ekki aðra eign upp í hana og keyptu á uppspenntum fasteignamarkaði þess tíma.

Út af fyrir sig getur maður sagt eins og hv. þingmaður, eða ég tala þá bara fyrir mig: Jú, jú, maður getur alltaf glaðst yfir því ef hagur einhverra vænkast en það dugar ekki þegar verið er að útdeila að mestu leyti skattpeningum, eða senda reikninginn á börnin okkar, að við gleðjumst bara yfir því að jafnvel forríkt fólk verði aðeins ríkara. Það er ekki nóg réttlæting.

Þá verður mér hugsað til víss manns sem orðaði þetta vel í litlu ljóði, hann heitir Piet Hein. Ég held að það megi fara með brot úr erlendum textum ef það er bein tilvitnun í bókmenntir og listamann, (Gripið fram í: Já.) en það var stuttur prósi sem hann setti fram einu sinni, Piet Hein. Hann er svona: Det er det gale ved pengene, at pengene, de tilhører aldrig dem virkelig trængende.

Þetta er auðskilið. Það er sem sagt gallinn við peningana að þeir eru yfirleitt ekki hjá þeim sem hafa mesta þörf fyrir þá, það liggur í hlutarins eðli. Á það kannski að einhverju leyti við hér, að það megi nota Piet Hein á þetta? Gallinn við þessa aðgerð er sá að hún kemur að allt of miklum hluta þeim til góða sem ekki eru endilega í brennandi þörf fyrir það en skilur mjög marga eftir sem eru miklu verr settir.