143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Aldurssamsetning þjóðarinnar er þannig að við erum að eldast. Við erum tiltölulega ung þjóð en við munum fara að finna fyrir því með vaxandi þunga að hlutfall þeirra sem eru yfir 80 ára mun fara vaxandi á næstu áratugum. Það er ánægjulegt að við lifum lengi og vonandi við sem besta heilsu, en það kallar auðvitað á aukin útgjöld ríkisins.

Lífeyriskerfið er þannig uppbyggt að frestun á skattgreiðslum af tekjum er innbyggð í það og þegar fólk fer á ellilífeyri og fær úr lífeyrissjóði eða séreignarsparnaði þá borgar það jafnframt skatta til samfélagsins. Það er til að hver kynslóð borgi fyrir sig af tekjum til að mæta útgjöldum ríkissjóðs. Með þessu erum við að taka það úr sambandi. Ég er á engan hátt að segja að það þurfi í öllum tilfellum að vera slæmt. Það kann að eiga fullan rétt á sér í einhverjum tilvikum, en þegar um er að ræða hátekju- og stóreignafólk finnst mér það geta orkað tvímælis. Þá komum við bara að því hver pólitísk forgangsröðun þeirra sem fara með völdin er. Er það að tryggja meiri auð til þeirra sem hafa mikið fyrir eða er það að reyna með jafnræði að leiðarljósi að tryggja hag allra sem best? Það þarf mjög góðar greiningar á því hvaða áhrif þetta hefur til framtíðar á möguleika ríkisins til að halda úti þeirri þjónustu sem nauðsynleg er svo að við getum kallað okkur velferðarríki.