143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að finna upplýsingar í þingmáli sem liggur hér frammi á bls. 16 um það hvernig þetta skiptist á fjölskyldurnar í landinu með eign á fasteignum, hvort þær eru skulda í eigninni eða ekki og hvort þær eru að safna í séreignarsparnað. Þar sjáum við að langflestir þeirra sem skulda og eiga fasteign spara í séreignarforminu. Flestir gera það. Fyrir þá sem ekki gera það verður hér til hvati til þess. Fyrir þá sem eru tekjulágir og sjá sér ekki fært að leggja til hliðar í séreignarsparnað verður hér til hjálp við að gera það og það mun nýtast til þess að standa í mánaðarlegum skilum með húsnæðislánið. Það er óumdeilanlegt. Þetta mun hjálpa fólki, sama hvort það er tekjulágt eða í millitekjuhópum eða í efri tekjum, við að standa í skilum með mánaðarlegar afborganir. Það gerir skattafslátturinn.

Varðandi útreikninga hef ég í sjálfu sér ekkert annað í höndunum en það sem segir í frumvarpinu. Ég tel að það séu réttir útreikningar. Það er rétt að þetta er auðvitað háð mati, mun á endanum fara eftir þátttöku í þessu úrræði, en gert er ráð fyrir því í öllum útreikningum að það verði mjög mikil þátttaka.

Sagt er að ekki megi senda reikninginn á framtíðina. Valkosturinn er þá sá að skilja skuldirnar eftir hjá heimilunum. Við lítum þannig á, sem stöndum að þessum aðgerðum, að það sé mikilvæg efnahagsleg aðgerð að hjálpa heimilunum að eiga við það sem eru í dag sögulega gríðarlega háar skuldir, líka í alþjóðlegu samhengi. Ef menn líta á það sem valkost að reyna frekar að styðja stöðu ríkissjóðs sem er reyndar ekki rekinn með halla í augnablikinu og skilja frekar skuldirnar eftir hjá heimilunum, þá erum menn að tala fyrir því að tekinn sé af fólki sá valkostur sem er hér á borðinu að leggja annaðhvort til hliðar fyrir efri árin eða ráðstafa sparnaði sínum eftir því sem fólk (Forseti hringir.) telur henta best stöðu sinni í dag miðað við hvar það er statt á lífsleiðinni. (Forseti hringir.) Sá valkostur í þessu tilviki snýst um (Forseti hringir.) að ráðstafa því framlagi til þess að lækka húsnæðisskuldirnar. Það tel ég skynsamlegt.