143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sannfærður um að séreignarstefnan hefur reynst okkur Íslendingum vel. Ef menn vilja ekki séreignarstefnu, vilja að fólk eigi ekki sitt eigið húsnæði, verður fólk að leigja það af einhverjum. Það sem vinstri flokkarnir hafa helst talað fyrir hér í þinginu er að það eigi að leigja það af einhverjum félögum sem megi ekki reka með hagnaðaráform. Þá erum við auðvitað komin út í einhvers konar almennan sósíalisma í húsnæðismálum sem mér líst ekkert á. En það er önnur umræða.

Ég ætla að segja varðandi það að þetta frumvarp sé eitthvað allt annað en rætt var um, það var nákvæmlega þetta sem við vorum að tala um fyrir kosningar, að fara séreignarsparnaðarleiðina. Menn segja: Það kemur á óvart að fólk þurfi eitthvað að leggja af mörkum sjálft. Nei, það kemur engum á óvart vegna þess að það var nákvæmlega svona sem við töluðum. Við erum reyndar að bjóða upp á meiri skattafslátt en við ræddum um vegna þess að í kosningabaráttunni töluðum við um 2% og 2%, þ.e. frá launþega og atvinnurekenda, en hér er gengið út frá 4% og 2%, samtals 6%. Þetta er meira en við gerðum sérstaklega ráð fyrir.

Hin leiðin sem við ræddum um til þess að hjálpa fólki til að eiga við húsnæðisskuldir sínar var sú að veita beinan skattafslátt sem að sjálfsögðu hefði komið niður á tekjum ríkissjóðs. Þess vegna á það heldur ekki að koma neinum á óvart þó að ríkissjóður komi við sögu í heildaraðgerðunum sem við erum hér að tala fyrir.

Er þetta óábyrgt? Nei, þetta er ekki óábyrgt. Þetta er aðgerð sem styður heimilin í því að lækka skuldastöðu sína. Það er raunhæft að gera það með þeim hætti sem við erum hér að kynna til sögunnar.

Varðandi tekjutapið tel ég að taka þurfi með í myndina auknar tekjur sem kunna að koma af því að fjölskyldurnar, heimilin í landinu, geti aftur orðið virkari þátttakendur í efnahagslífinu. Það mun að einhverju leyti skila sér í sköttum til baka.

Varðandi sérstöku vaxtabæturnar. Þær voru ágætar, en þær voru ákveðnar af hálfu fyrri ríkisstjórnar sem tímabundið úrræði sem síðan rann sitt skeið. Gallinn við það úrræði var meðal annars sá að það voru ekki allir (Forseti hringir.) sem nutu, mörkin voru það þröng. (Forseti hringir.) Það voru ákveðin tekjumörk á sérstöku (Forseti hringir.) vaxtabótunum. En ég ætla ekkert að mæla sérstaklega (Forseti hringir.) gegn því úrræði, það var ágætt. (Forseti hringir.) Það hefur runnið sitt skeið. Hér er farin (Forseti hringir.) önnur leið.