143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Til að taka af allan vafa um það hef ég aldrei lagst gegn því að það gæti verið réttlætanlegt og skynsamlegt að fara í tilteknar afmarkaðar aðgerðir til að aðstoða fólk við að lækka höfuðstól verðtryggðra lána, en ég hef alltaf einskorðað mig við að það yrði þá sá hópur sem sannanlega varð fyrir forsendubresti vegna þess að hann tók lánin á óhagstæðasta tíma, 2004–2008, og alveg sérstaklega þeir sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð. Það standa rök til þess að ráðstafa einhverjum fjármunum í að aðstoða það fólk sérstaklega við höfuðstólinn, en þar með er það líka upptalið.

Hér eru í vændum aðgerðir sem eru allt annars eðlis og dreifa þessu yfir allan hópinn og munu skila hæstu fjárhæðunum til þeirra sem eru með miklar skuldir og eiga auðvitað verðmætar eignir á móti og hafa ekki notið góðs af neinum aðgerðum sem búið er að ráðast í og koma þá til frádráttar. Eini hópurinn sem hugsanlega getur fengið 4 milljóna lækkun höfuðstóls út úr hinum hluta aðgerðanna eru þeir sem voru svo vel settir að þeir komust ekki í 110%-leiðina, þeir sögðu sig frá greiðslujöfnun, þeir fóru þaðan af síður í sérstaka skuldaaðlögun og þeir voru með svo há eignarmörk að þeir fengu ekki sérstöku vaxtaniðurgreiðsluna þannig að hún kom ekki heldur til frádráttar. Það sýnist mér vera eini hópurinn sem getur fengið fullt út úr þessu.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að við skárum okkur nokkuð úr frambjóðendahópnum í Norðausturkjördæmi hvað varðaði það að vera gagnrýnin á þessar hugmyndir og benda á það t.d. að landsbyggðarfólk fengi náttúrlega að breyttu breytanda miklu, miklu minna út úr þessu en aðrir.

Vandinn var auðvitað að eiga við þetta þegar talað var eins og þetta kæmi bara eins og af himnum. Það var talað þannig, það mundi bara allt í einu fara að rigna peningum af himnum ofan frá einhverjum hrægömmum og það yrði ekkert mál að gera allt fyrir alla og enginn þyrfti að borga neinn reikning. Síðan er þetta búið að breytast svo hressilega yfir í andhverfu sína að það er (Forseti hringir.) allt á kostnað eða ábyrgð ríkisins nema það sem menn borga sjálfir út úr séreignarsparnaðinum.