143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[19:38]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði einhvern tímann að það hefðu ekki verið nema um 75% af þeim sem áttu rétt á 110%-leiðinni sem fóru þá leið. Það finnst mér vera mjög athyglisvert og velti fyrir mér hvort hv. þingmaður, sem þekkir þessi mál kannski betur en ég, geti ímyndað sér af hverju fólk nýtti sér ekki þá leið.

Síðan er annar punktur sem ég sé í þessu frumvarpi, ef ég skil það rétt. Fólk sem á ekki húsnæði núna en vill notfæra sér þennan séreignarlífeyrissparnað á að nýta hann eigi síðar en 30. júní 2019. Það hefur nokkur ár til að safna einhverri upphæð og á síðan að nýta sparnaðinn. Ég velti fyrir mér hvaða áhrif það hafi á fasteignamarkaðinn ef sett eru einhver tímamörk þarna, að fólk þurfi að vera komið með einhvern kaupsamning í hendur til að geta nýtt sér þetta úrræði. Þetta er kannski spurning sem ætti frekar að spyrja hæstv. ráðherra að. Ég hef sett spurningarmerki við þetta. Mér finnst ég ekki hafa fengið svar við þessu. Ég ætlast ekki til að hv. þingmaður svari því, hann er auðvitað ekki ábyrgur fyrir þessu.

Ég hef áhuga á að vita hvað hann segir um þann hóp sem fór ekki 110%-leiðina og kannski líka um þá sem hv. þingmaður segir að þurfi enn að fá einhverja lausn.

Mér finnst rétt að benda á að við erum að setja gríðarlega peninga í vaxtabætur á hverju ári til handa þeim sem ákveða að kaupa sér húsnæði á meðan við gerum ekki neitt sambærilegt fyrir þá sem ákveða að vera á leigumarkaði. Við erum með mikla séreignarstefnu á Íslandi bara í vaxtabótakerfinu, fyrir utan allar aðrar aðgerðir sem við höfum staðið í hérna til að leiðrétta lán heimilanna.