143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:16]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Eins og fram hefur komið er í frumvarpinu lagt til að heimilt verði að ráðstafa séreignarsparnaði inn á höfuðstól verðtryggðra lána sem tryggð eru með veði í húsnæði. Þessi heimild er tímabundin og skattfrjáls.

Ég fagna þessu frumvarpi og er ánægð með að það sé lagt fram samhliða almennri aðgerð, einni höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Ég held því fram að þessi aðgerð sé góð. Hér á landi hefur því verið haldið fram að húseignir séu lífeyrissparnaður margra. Margir selja húsin sín, en ekki allir, á efri árum og fara í minna.

Ég hugsa líka um þær fjölskyldur sem eru með börn á framfæri og leggja fyrir lífeyrissparnað til efri ára, hvort ekki sé skynsamlegra að nýta þennan viðbótar- og séreignarsparnað núna þegar framfærslukostnaður heimilanna er mikill, nýta hann þegar á þarf að halda og leggja í húsnæði sitt sem getur orðið lífeyrissparnaður þeirra á seinni árum.

Talsverð gagnrýni hefur verið á frumvarpið, m.a. frá nokkrum stjórnarandstæðingum, um að aðgerðin henti bara þeim tekjuhæstu. Ég tel að þakið, 500 þúsundin á ári fyrir heimili, komi akkúrat á móti þeim rökum. Ég tel að þetta úrræði komi best til móts við millitekjuhópana. Eins og fram kemur í einu dæmi er miðað við að hjón sem hafa samtals tæplega 700 þúsund í heildartekjur geti nýtt sér aðgerðina að fullu. Það eru um 350 þúsund á mann, svipað og kennaralaun, og aldrei mun ég telja það fólk til hátekjuhóps.

Hins vegar get ég tekið undir orð ýmissa sem hér hafa talað. Mér finnst áhyggjuefni að þeir lægstlaunuðu geti ekki nýtt sér aðgerðina að fullu. Eins og með beinu höfuðstólslækkunina ber að fagna því að hér sé um að ræða afar einfalt umsóknarferli. Ég tel það til mikilla bóta en ég hef heyrt í kringum mig að margir hafi kviðið fyrir því ef um flókið ferli hefði verið að ræða. Það gæti verið fráhrindandi og gott er að mínu mati að þrátt fyrir að um flókna útreikninga geti verið að ræða í einhverjum tilvikum, og það á samt frekar við um beinu niðurfellinguna en séreignarsparnaðarleiðina, er mjög jákvætt að þeir sem sækja um þessar aðgerðir þurfi ekki að fara milli stofnana til að leita réttar síns.

Einnig er ég ánægð með að umsækjendur geti valið sjálfir í umsóknarferlinu, sem er mjög einfalt, það lán eða þau lán sem þeir vilja borga niður með aðgerðinni, valið hvað sé hagstæðast fyrir viðkomandi. Einu skilyrðin fyrir því láni sem verður fyrir valinu er að um sé að ræða verðtryggt húsnæðislán.

Ég fagna því að samkvæmt frumvarpi þessu sé einnig heimilað að nýta séreignarsparnað í húsnæðissparnað. Ég er mjög hlynnt því að draga úr skuldsetningu íslenskra heimila í framtíðinni. Hv. þingmaður sem hér stendur talaði fyrir frumvarpi þess efnis snemma á þessu þingi. Þar var fjallað um húsnæðissparnaðarreikninga og ákvæði um skattaívilnanir þar á móti. Það frumvarp tók jafnframt á því að húsnæðissparnaðurinn næði til kaupa á búseturétti. Ég hefði gjarnan viljað sjá þetta frumvarp um séreignarsparnaðinn ná til þeirra sem vilja kaupa sér búseturétt.

Ég er ánægð með þá nýju hugsun sem fram kemur í frumvarpi þessu að hvetja fólk til sparnaðar fyrir húsnæði. Ég geri mér fulla grein fyrir því að 1,5 milljónir muni kannski ekki ná að fullu í útborgun en á móti þeim úrræðum kæmi þá töluverður sparnaðar. Mér finnst mjög mikilvægt að allir hafi val um búsetuform, sem sagt hvort þeir vilji eiga húsnæði eða leigja. Þess vegna hefði ég líka viljað sjá þetta ná til búseturéttar en við skulum bara sjá hvað verður. Hver veit?

Efasemdaraddir hafa heyrst í nokkrum um að ekkert verði gert fyrir þá sem eru á leigumarkaði. Í lokin langar mig að koma inn á það sem verið er að gera fyrir þá sem eru á leigumarkaði. Innan velferðarráðuneytisins starfar verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Ég á sæti í þeirri nefnd og mikil vinna hefur verið unnin þar í allan vetur til að finna leiðir til að koma til móts við leigjendur. Það er haft að markmiði að finna úrræði sem gerir leigumarkaðinn öruggan með langtímaleiguúrræði í boði. Einnig er skoðað hvernig við getum mögulega lækkað leigukostnað einstaklinga. Eins og við vitum öll hefur leigukostnaður einnig hækkað mikið á undanförnum árum. Í því samhengi hefur verið skoðað að í stað niðurgreiddra vaxta á félagslegum lánum komi inn stofnframlög strax í byrjun til leigufélaga og þar að kæmu ríki, sveitarfélög og leigufélögin sjálf. Þar er áætlað að sú aðferð gæti náð 10–20% lækkun á leigutekjum. Engin ákvörðun hefur verið tekin í þessum efnum en þetta er tillaga sem greiningaraðilar fjölluðu um í skýrslu sem gerð var opinber fyrir um það bil tveimur vikum og verkefnisstjórnin mun síðan skrifa skýrslu og taka afstöðu til þeirra mála sem þar koma fram.

Mér finnst einnig mjög mikilvægt að við horfum til heildarmyndarinnar í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um skuldamál heimilanna. Þessi frumvörp, það sem við ræðum hér í dag um séreignarsparnaðarleiðina og það sem við munum líklega ræða strax eftir helgina, um beina höfuðstólslækkun, eru eingöngu einn liður af tíu. Eins og ég kom inn á áðan er unnið að málefnum leigjenda í verkefnisstjórninni um framtíðarskipan húsnæðismála. Eins og ég kom inn á er unnið að úrræðum á almennum leigumarkaði og félagslegum úrræðum í húsnæðismálum og þeirri vinnu verður skilað í lok þessa mánaðar.

Ég ætla ekki að lengja þetta frekar. Ef einhver andsvör verða kem ég bara inn á þær spurningar sem fólk hefur, en mér finnst óþarfi að endurtaka það sem hefur komið fram í umræðunni.