143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur látið þessi mál mjög til sín taka, bæði í sölum Alþingis og í ýmsum greinum sem ég hef stúderað og lesið af miklum áhuga. Fyrir það ber að þakka henni og áhuga hennar á því máli. Ég er klár á því að hún hefur mjög einlægan áhuga á að bæta stöðu þeirra sem eru illa settir eftir verðtrygginguna.

Hér eru í reynd tvö frumvörp undir, þetta sem við erum að ræða formlega á dagskránni, en síðan líka sjálft höfuðstólslækkunarfrumvarpið. Ég hef skilið hv. þingmann þannig, a.m.k. í ýmsum greinum sem hún hefur skrifað, að það sé algjör forsenda þess að þetta gangi upp sem ríkisstjórnin er að gera að verðtryggingin verði afnumin um leið. Hins vegar er staðan þannig að sú merka nefnd sem átti að gera tillögur um hana komst ekki langt úr sporunum og eiginlega heldur festi í sessi verðtrygginguna.

Vilhjálmur Birgisson, merkur leiðtogi á Akranesi, hefur sagt að ef verðtryggingin er ekki samhliða afnumin sé verr af stað farið með þessi frumvörp en heima setið. Ég spyr hv. þingmann: Er hún sammála því? Telur hún að ef verðtryggingin verði ekki afnumin líka sé hugsanlegt að þessar aðgerðir séu verri en ekkert?