143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:32]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir andsvarið.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég hef mikinn áhuga á þessum málum og það er mín skoðun að mikilvægt sé að koma heimilum landsins til aðstoðar. Ég hef komið fram með mjög sterkar skoðanir á hlutnum og lýst persónulegri skoðun minni, og mér finnst mjög mikilvægt að verðtryggingin verði afnumin um leið og skuldaniðurfærslan fer fram eða að ákveðið þak verði sett á verðtryggð lán í samræmi við verðbólguviðmið Seðlabanka Íslands. Þannig verður minni hætta á því ef eitthvað kemur upp á að heimilin verði fyrir efnahagslegu tjóni.

Ég hef trú á þeirri efnahagsstjórn sem nú er í landinu og hef trú á því að hér verði stöðugleiki, ég vil fá að trúa því. En varðandi verðtryggingarmálin var þeim vísað til verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála sem unnið er að í velferðarráðuneytinu og þar er verið að vinna með bæði álitin, bæði meirihlutaálit nefndarinnar, verðtryggingarhópsins, og einnig sérálit Vilhjálms Birgissonar. Ég á sæti í verkefnastjórninni og ég vona að okkur takist þetta viðamikla verkefni sem fylgir um framtíðarskipan húsnæðismála, afnám verðtryggingar og fleiri atriði. Ég vona svo sannarlega að við náum að skila af okkur og hef fulla trú á því að það takist í lok þessa mánaðar. Eins og ég segi er það mín persónulega skoðun mikilvægt sé að verðtryggingin verði afnumin um leið og skuldaniðurfærslurnar ná fram að ganga.