143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:05]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að segja til um það. Það er tvennt sem er nokkuð öruggt í þessu lífi. Í fyrsta lagi þurfum við þak yfir höfuðið á starfsaldri og í öðru lagi þurfum við lífeyri eftir að starfsgetu okkar lýkur, ef við á annað borð lifum þann tíma.

Lífeyriskerfið er byggt upp til þess að við höfum lífeyri sem við höfum aflað sjálf en sé ekki aflað í samtímanum, þ.e. við byggjum sem sagt upp lífeyriskerfi á söfnun en ekki á gegnumstreymi. Vissulega er það sem við erum að fara í núna ákveðið gegnumstreymi að mjög takmörkuðu leyti. Það er verið að leysa hér úr ákveðnum vanda sem varð til hjá einhverjum, nokkrum, ég ætla ekki að segja hverjar ástæðurnar voru, en besta fjárfesting sem hver maður á er sú að borga af lánunum sínum.