143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég virði afstöðu þingmannsins. Hann hefur þá nokkurn tíma til þess að undirbúa svar sitt við þeirri umræðu hvort 1% verðbólga sé of lágt metið hjá Seðlabankanum, þ.e. verðbólguáhrifin af þessum aðgerðum, og 0,8% hækkun á stýrivöxtum nokkur ár í röð.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í þetta frumvarp, hvort hann geti ekki tekið undir að það sé sanngirnissjónarmið að einstaklingur með 350 þús. kr. mánaðartekjur sem vill samt spara með þessum hætti sömu krónutölu og við þingmenn mundum gera, eða 42 þús. kr. á mánuði skattfrjálst inn á séreignarsparnað, að honum eigi að vera það kleift, það eigi ekki að vera sérstakt prósentuhámark miðað við tekjur hans hvað hann megi leggja þarna inn og það prósentuhámark geri að verkum að jafnvel þótt hann vilji leggja til hliðar jafn margar krónur í mánuði hverjum og við gerum sem hærri höfum tekjurnar þá fái hann ekki að njóta (Forseti hringir.) sömu fríðinda og við vegna þess að skattafsláttur hans sé í krónutölu lægri (Forseti hringir.) en sá sem okkur býðst.