143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Enn og aftur glímir starfandi ríkisstjórn og sitjandi Alþingi við það að koma Íslandi út úr afleiðingum hruns, eftir að allir bankarnir hrundu á skömmum tíma, gengi íslensku krónunnar hrundi, verðbólgan stökk upp, kaupmáttur hrapaði, fólk tapaði eignum og skuldir, bæði gengistryggðar og verðtryggðar, hækkuðu verulega. Íslenska ríkið tapaði fimmtungi tekna sinna og á skömmum tíma jukust skuldir ríkissjóðs verulega og ríkissjóður situr í dag uppi með vaxtakostnað sem nemur um 90 þúsund milljónum, eða 90 milljörðum kr. Á sínum tíma, þegar menn voru að glíma við þetta viðfangsefni, völdu menn blandaða leið niðurskurðar og skattahækkana og gripið var til fjölþættra leiða út úr vandanum, leiða sem voru skýrðar ágætlega í skýrslu sem gefin var út í apríl á síðasta ári.

Skuldir íslenskra heimila — þegar við erum að tala um heimili erum við í raun að tala um alla íbúa þessa lands — höfðu aukist gríðarlega frá því fyrir aldamót og voru komnar yfir 2.000 milljarða kr. fyrir hrun. Þegar bankarnir komu inn á húsnæðismarkaðinn tvöfölduðust um það bil skuldir vegna húsnæðis. Íbúðalánasjóður var þar fyrir, nær einn á markaðnum, en á þessum árum komu bankarnir inn og tvöfölduðu þessar skuldir, þ.e. íbúar tóku þessi lán. Lánveitingarnar voru 90% og jafnvel lánað fyrir útborgun til viðbótar oft með veðum eða ábyrgðum eða lánsveðum úr húsum foreldra eða einhverra úr fjölskyldunni. Í mörgum tilfellum var einnig viðbótarlán til að lagfæra húsnæðið þannig að menn fóru í mörgum tilfellum, eftir auglýsingar bankanna, af stað með yfir 110% skuldsetningu.

Á sama tíma voru fjölmörg bílalán tekin. Flest þeirra voru gengistryggð eða á einhvers konar kaupleigusamningum með gengisviðmiðum, þessir samningar voru fleiri en nokkru sinni. Á þessum tíma var þensla í samfélaginu, atvinnuleysi var lítið og margt fólk spennti bogann hátt, þ.e. þeir sem gátu og höfðu rúmar tekjur. Síðan hrynur allt saman. Við ræðum um forsendubrest. Það hefur komið ágætlega fram hér fyrr í umræðunni, og í andsvörum á liðnum dögum, að alltaf má deila um hvaða forsendubrestur hafi orðið. Var það fyrst og fremst á höfuðstól húsnæðisskulda eða var það eitthvað annað?

Kannski voru alvarlegustu brestirnir tekjurýrnun launafólks, tekjurýrnun öryrkja og ellilífeyrisþega, afkoma þeirra hrundi. Til viðbótar varð hér hátt í 10% atvinnuleysi sem þýddi að fjöldi manns hafði miklu lakari afkomu, miklu minni greiðslugetu og þar af leiðandi lenti fólk í vandræðum. Þess vegna verður að skoða líka, þegar verið er að grípa til aðgerða, hvort sem í hlut á fyrri ríkisstjórn eða sú sem situr núna, hvað það er sem fyrst og fremst þarf að bregðast við.

Af hverju er ég að rifja þetta upp hér? Jú, það er vegna þess að enn eru menn að glíma við að laga þessi ósköp. Margt af því sem gert hafði verið áður, hrunið sjálft fyrst og fremst, var gríðarlega óréttlátt, kom misjafnlega niður, lenti með ólíkum hætti á einstaklingum í þessu samfélagi. Við allar þær aðgerðir sem gripið var til var erfitt að gæta þar jafnræðis. Það var ósanngjarnt hverjum verið var að hjálpa. Það var ósanngjarnt að skoða hvernig menn löguðu húsnæðisskuldir jafnvel á svæðum þar sem 30–40% hækkun hafði orðið á fjórum árum fyrir hrun. Á sama tíma höfðu menn farið í gegnum gríðarleg áföll, bæði 1989 og 1990; menn höfðu lent í áföllum, eins og hér var nefnt fyrr í ræðu, úti á landi vegna kvótaflutnings eða þar sem útgerðir höfðu farið af staðnum og hrun orðið á eignum án þess að menn hefðu fengið neinar bætur.

Þrátt fyrir allar þessar umfangsmiklu aðgerðir, sem voru á fyrra tímabili, var ljóst að í síðustu kosningum var kallað eftir meiru. Það endaði með því að flokkarnir kepptust um að lofa lausnum og lagfæringum og nú er annars vegar verið að kalla eftir efndum á þessum loforðum og hins vegar verið að meta þau úrræði sem annars hafa komið fram.

Margir spyrja um þau loforð og þær yfirlýsingar sem komu frá Framsóknarflokknum um að hér væri gríðarlegt fjármagn í þrotabúum bankanna sem hægt væri að nota til þess að leiðrétta höfuðstólsskuldir. Engin leið er að komast undan því að í því samhengi var talan 300 milljarðar ítrekað nefnd, stundum hærri tölur.

Þá sagði hæstv. forsætisráðherra í þættinum Forystusætið á RÚV fyrir kosningarnar 2013, með leyfi forseta: Við ætlum að láta þá sem bjuggu til forsendubrestinn bæta forsendubrestinn sem þeir bjuggu til, þ.e. þrotabú þessara banka.

Þetta er fróðlegt að skoða í samhengi við þær lausnir sem nú eru að koma fram, bæði með því frumvarpi sem hér er verið að ræða í dag og því frumvarpi sem verður rætt á mánudaginn. Í dag erum við að fjalla um hluta Sjálfstæðisflokksins af loforðunum; hann lofaði að nota séreignarsparnað eða skattkerfið til að leiðrétta skuldir. Flokkurinn hefur næstum staðið við það í þeim tillögum sem hér koma fram í dag. Tillögurnar á mánudaginn eru svo loforð Framsóknarflokksins sem voru um gríðarlega miklar niðurfellingar. Þar eru menn í sjálfu sér ekki kannski að standa við nema um 25% af þeim loforðum og varla það.

Þegar tillögurnar allar voru lagðar fram, fyrst í þingsályktunartillögu og síðan í skýrslu sem lögð var fram fyrir jólin, voru menn búnir að skilgreina forsendubrestinn. Það kom fram á sumarþinginu, þegar við vorum að ræða þingsályktunartillöguna. Þá var ítrekað sagt að menn ættu að leiðrétta kostnaðinn sem féll á heimilin umfram efri vikmörk Seðlabanka Íslands sem voru 4%. Síðan kom skýrslan í nóvember, þá voru þessi viðmið einhverra hluta vegna orðin 4,8%, sem þýðir miklu minni leiðréttingu en menn gáfu til kynna þegar þingsályktunartillagan var lögð fram, eða þar á undan. Síðan er þetta horfið út úr því frumvarpi sem við förum yfir á mánudaginn. Nú vitum við ekkert hver þessi forsendubrestur var. Nú á hann að vera breytilegur miðað við einhverja hámarksupphæð og eftir því hversu margir sækja um. Þannig að almenna aðgerðin, sem átti að vera hér, er orðin býsna sértæk og háð ýmsum skilyrðum eins og kemur ágætlega fram í frumvarpinu, meðal annars í umsögn fjármálaráðuneytisins um þessar lausnir.

Við skulum ekkert gera lítið úr þeirri viðleitni sem á sér stað, bæði með því frumvarpi sem hér er og þeirri leiðréttingu sem verið er að vinna með sem verður rædd á mánudaginn, þessum tveimur frumvörpum, til þess að stíga næsta skref í átt að því að leiðrétta skuldastöðu heimilanna. Ég vil ekki tala það niður þannig að ekki sé ástæða til að bregðast við áfram. Eins og maður segir stundum þá er það ekki bara spurningin um að gera ákveðna hluti rétt, það er líka spurningin um að gera réttu hlutina. Þar upphófst kannski ákveðin keppni um það að vandi heimila fælist í höfuðstólsskuldum heimila á landinu.

Allar upplýsingar sem höfðu verið skoðaðar áður sýndu að það var hjá takmörkuðum hópi en ekki hjá heildinni. Þess vegna hefur maður efasemdir, vegna þess að margt af því sem verið er að gera hér mun gagnast hópi sem býr í sínum húsum, hefur verið með skuldir í 10 til 15 ár, og borgar kannski ekki nema á bilinu 30–60 þús. kr. á mánuði og á ekki í nokkrum vandræðum með það. Þá spyr maður: Af hverju erum við að færa þessum hópi pening á sama tíma og okkur vantar pening til að tryggja að útgjöld heimila til annarra þátta geti lækkað, hvort sem það eru komugjöld á sjúkrahúsum eða lægri skólagjöld í opinbera háskóla, svo að við tökum bara tvö dæmi af öllu því sem verið hefur til umræðu hér á þinginu í haust? Eða af hverju eru peningarnir ekki bara notaðir til að bæta kjörin hjá þeim sem lægst hafa launin þannig að þeir geti betur staðið í skilum og komið sér áfram í íslensku samfélagi?

Ef við tökum þetta frumvarp, sem er niðurgreiðsla á höfuðstól, má alltaf deila um hvort það hafi varanleg áhrif á það að vera með sparnaðarform. Við erum annars vegar að tala um að eyða sparnaðinum í staðinn fyrir að afla hans, borga niður höfuðstól, hjálpa fólki þannig með því að leggja fé úr ríkissjóði til aðila sem ég hef nefnt áður, bæði til þeirra sem eru mikið skuldugir og eru í miklum vandræðum og til þeirra sem þurfa ekkert á þessu að halda. Um leið náum við ekki til hinna, þeirra sem eru skuldlausir með húsin sín, nema að takmörkuðu leyti. Við náum ekki heldur til þeirra sem eru leigjendur á markaði. Þar eru hópar sem við verðum að eiga pening til að hjálpa sem eru leigufélögin, eins og Félagsbústaðir, húsfélagið Brynja hjá Öryrkjabandalaginu, við getum nefnt Búmenn og Búseta, og ég gleymi örugglega einhverjum af þessum félögum. Þarna hefur verið verðtryggð leiga og fólk er að borga allt upp í 150–170 þús. kr. á mánuði fyrir húsnæði, og það fær ekki neina leiðréttingu hér.

Þetta fólk mun ekki geta tekið 4% af tekjum sínum til þess að borga inn í séreignarsparnað til að safna fyrir nýrri eign. Að auki hef ég þessar áhyggjur, og mér finnst að menn eigi að spyrja sig að því í nefndinni, þegar þetta mál verður rætt þar: Við höfum verið að vinna að húsnæðisstefnu — fyrri ríkisstjórn með mjög góðri greinargerð og núverandi hæstv. ráðherra hefur unnið áfram með þá greinargerð — sem hefur það grundvallarmarkmið að jafna stöðu fólks hvað varðar húsnæði á leigumarkaði og eignamarkaðnum. Þar var rætt um húsnæðisbótakerfið, þar hefur verið rætt um hvernig við getum tryggt öruggt húsnæði til leigu til langs tíma, húsaleigumarkað sem við eigum ekki í dag. Þá spyr maður hvort þessar aðgerðir hér, að geta safnað einni og hálfri milljón á þremur árum til að eiga eitthvað upp í útborgun, vinni með þessari stefnu á sama tíma og við sjáum engin önnur úrræði.

Við verðum líka að skoða það sem hefur að vísu komið ágætlega fram hér í umræðunni og góð grein gerð fyrir, þ.e. hvernig þetta nýtist mörgum. Það er rétt, sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, að með því að segja að hámarkið sé 1,5 millj. kr. á þremur árum er sett þak á það, þeir sem eru með yfir 700.000 kr. geta ekki nýtt sér meira en það. En á sama tíma skoðar maður allan hinn hópinn. Menn segja: Já, hjón sem eru með meðaltekjur upp á 400.000 kr., þau fara yfir þetta. Gott og vel, það er rétt, við erum að tala um meðaltekjur. En hve margir á Íslandi búa einir? Það er algengasta búsetuformið á Íslandi. Hvernig eiga þeir að geta nýtt sér þetta með meðaltekjur upp á 400.000? Þeir munu fá endurgreiðslu í skattkerfinu upp á 300–400 þús. kr., eða upp á 300–350 þús. kr., þ.e. þeir þurfa ekki að borga skatt. Þarna ræðst þetta að vísu líka af því í hvaða þrepi menn eru að borga annars ef þeir væru að nýta þennan sparnað sem að vísu er inni í framtíðinni hjá mörgum. En þeir sem eru með bestu tekjurnar geta nýtt sér þetta.

Ég hef áhyggjur af þessu vegna þess að íslenskt samfélag snýst um að tryggja að allir hafi einhver ákveðinn grunn. Samtímis getum við talað um það sem efnahagsaðgerð að allir geta lifað og haft tekjur og afgang. En það er hægt að gera með ýmsu öðru en því einu að borga niður höfuðstól og allra síst hjá þeim aðilum sem eru í raun ekkert með háar afborganir í dag vegna þess að þeir hafa verið að borga í langan tíma og notið hækkana jafnt sem lækkana á þessum langa tíma.

Allt þetta kemur mjög vel fram hér í skýrslunni, hvernig þetta dreifist. Það kemur ágætlega fram að þeir sem fjárfesta á bilinu 1994–2004 tapa í raun ekki neitt á þessu hruni, það er enginn forsendubrestur hjá þeim, þeir eru búnir að taka inn hækkanir og missa það til baka að hluta eins og hér kom ágætlega fram í svari hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni.

En það eru ótal spurningar sem vakna þegar maður skoðar svona leiðir. Ég nefndi leigjendurna. Ég nefndi leigufélögin. Við vorum búin að ræða hér um greiðslujöfnunina, af hverju er hún tekin fyrst? Hún er úrræði til að jafna afborganir, og ef það fer út fyrst verður greiðslubyrðin ekkert léttari. Af hverju er hún ekki tekin á eftir? Auðvitað stendur það sem skuld á húsinu, en þó með því öryggi að ef menn nái ekki að borga það (Gripið fram í.) niður þá fellur það niður í lok greiðslu skuldarinnar.

Þetta er þriggja ára átak. Af hverju þrjú ár? Af hverju erum við ekki að komast inn í varanlegan sparnað og form þar sem við búum til kerfi þar sem fólk fær skattafslátt, getur safnað sér með sérgreiðslu inn á húsnæðissparnað og lagt það í húsakaup og þá átt fyrir meira en 1,5 millj. kr., vegna þess að sú upphæð dugir eingöngu fyrir 7,5 millj. kr. íbúð, það eru ekki margar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á því verði eða lægra.

Margar spurningar vakna. Hér hefur komið ágætisábending og athugasemd: Eigum við að ráðstafa séreignarsparnaðinum okkar, taka hann úr öruggri umsýslu, vegna þess að hann er þannig varinn að ef fólk lendir í þrotum eða vandræðum má ekki ganga að honum. Færi menn það yfir á húsið eða ætla að nota hann þar, geta menn misst hann. Ég held að menn verði að skoða meðal annars þetta, hver og einn, þeir sem eru að vega og meta hvort leggja eigi séreignarsparnað inn í þetta dæmi.

Oft er talað um hversu margir muni njóta þessara hluta. Þá gleymist sá stóri hópur sem er í raun skuldlaus í dag og hefur verið það. Það gleymist líka að þessar aðgerðar í heildina ná ekki til nema rétt um helmings þeirra sem eiga íbúðarhúsnæði og munu þar af leiðandi ekki létta greiðslubyrðina hjá hinum.

Tíminn er fljótur að líða og fara þarf yfir fullt af spurningum í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég treysti á að málið verði mjög vel unnið, markmiðið er að betrumbæta það hér í þinginu. Markmiðið er ekki að berjast á móti því (Forseti hringir.) eða hafna því að gripið sé til frekari aðgerða í þágu heimilanna. En það er okkar (Forseti hringir.) að reyna að nýta fjármagnið sem allra best og koma því þannig fyrir að málið fái vandaða umfjöllun og frumvarpið verði betrumbætt af þinginu áður en það verður afgreitt.