143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef þegar, í andsvörum hér í umræðunni, gert grein fyrir þeim sanngirnissjónarmiðum sem ég tel mikilvægt að nái fram í breytingartillögum við þetta mál og sömuleiðis lagt áherslu á mikilvægi þess að enn lengra verði gengið í að auka valfrelsi fólks um það hvernig það ráðstafar sínum eigin frjálsa sparnaði.

Í ljósi þess að hætta þarf fundi tiltölulega snemma í kvöld, vegna fundarhalda sem verða hér á morgun og í ljósi þess að við í stjórnarandstöðunni höfum lagt áherslu á að greiða þessum málum stjórnarliða braut hér í þinginu, hefðum við gjarnan viljað afgreiða mál Framsóknarflokksins, svokallað 1. apríl frumvarp, í gegnum umræðu í gær og koma því til nefndar. Því miður vildi Framsóknarflokkurinn ekki ræða sitt eigið frumvarp 1. apríl, en nú er von til þess að takast megi að ljúka umfjöllun um hið ágæta mál um séreignarsjóðina sem ég held að sé miklu betra mál augljóslega, að takast megi að ljúka umræðunni um það hér í kvöld og koma því til nefndar. Ég vil fyrir mitt leyti greiða fyrir því og læt hér lokið máli mínu.