143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Mér dettur í hug þegar stór loforð stjórnarflokkanna fyrir kosningar í vor eru rædd: Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús. Þó að mýs geti verið ágætar og fallegar eru þær kannski ekki það sem við bjóðum almenningi upp á í þessu sambandi.

Ég er mjög hugsi yfir því hverjum þessar aðgerðir gagnist mest. Er það svo enn eina ferðina að þær gagnist þeim sem eru efnameiri og þeir tekjulægri sitji eftir? Hverjir skuldsettu sig mest í svokölluðu góðæri? Það voru frekar þeir hópar sem höfðu möguleika á að taka lán og skuldsetja sig fyrir dýrara húsnæði. Því miður fóru margir offari og reistu sér hurðarás um öxl. Auðvitað er líka fullt af fólki sem fór varlega og þegar hrunið varð réð enginn við þær afleiðingar sem það olli.

Gripið var til margra ráðstafana á síðasta kjörtímabili eins og hér hefur verið nefnt, greiðslujöfnun, 110%-leiðin og fleiri aðgerðir, sérstakar vaxtabætur, sem hafa reynst fólki vel. Þess vegna finnst mér það mjög sérkennilegt að nú fimm árum eftir hrun gjaldi það fólk sem er illa statt, sem þessar aðgerðir hafa ekki dugað fyrir, þess að hafa fengið aðstoð frá ríkisvaldinu á síðasta kjörtímabili, gjaldi þess nú þegar kemur til stærstu skuldaleiðréttingar sem framkvæmd hefur verið á heimsvísu, eins og manni hefur heyrst, að það fólk sé tekið út fyrir sviga. Það er það fólk sem þarf að greina miklu betur, hvað gekk ekki nægilega vel eftir, það þarf að mæta þeim hópum sem enn standa frammi fyrir miklum erfiðleikum við að ráða við skuldir sínar.

Ég tel að þeim fjármunum sem nú er verið að tala um að verja til skuldaleiðréttinga, hvort sem það er þetta frumvarp varðandi sparnaðinn eða það frumvarp sem við munum trúlega ræða í næstu viku, um lækkun höfuðstóls eða greiðslu inn á höfuðstól lána, hefði verið hægt að nýta með miklu skilvirkari hætti og beina þeim í réttan farveg til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda. Við hefðum getað notað þær tekjur sem við fáum, hvort sem það er með bankaskatti eða með sparnaði, til að greiða niður skuldir ríkisins svo að við getum frekar eflt og styrkt velferðarkerfi okkar, menntakerfið og uppbyggingu innviða samfélagsins og spýtt í lófana þar sem við höfum þurft að draga saman seglin eftir bankahrunið 2008.

Eins og fram hefur komið í ræðum margra er verið að ávísa vandanum fram í tímann. Bæði ríki og sveitarfélög munu í framtíðinni tapa, með skertum skatttekjum, þegar verið er að koma hlutum þannig fyrir að fólk geti lagt inn á séreignarsparnað og ekki greitt skatt af þeim sparnaði. Þarna liggja gífurlegir fjármunir undir og ég held að menn átti sig ekki alveg á hve háar upphæðir það eru og hvaða afleiðingar þetta mun hafa til framtíðar fyrir ríki og sveitarfélög og þjónustustig í sveitarfélögum og á möguleika ríkisins á því að efla menntun og rannsóknir og annað sem við þurfum virkilega að gera í breyttu þjóðfélagi framtíðarinnar, með aðrar kröfur frá nýrri kynslóð hér á landi.

Svo spyr maður sig líka hvort það sé endilega rétt hjá fólki, sem er kannski á miðjum aldri, að fara að leggja inn í séreignarsparnað og nýta til þess að greiða niður húsnæðislán sín, í stað þess að nýta þann séreignarsparnað sér til tekjuauka á eftir árum. Menn eru svolítið að ýta vandanum á undan sér, horfa bara á núið en ekki á afleiðingar þess í framtíðinni í hvaða sporum menn standa þá. Almennt séð hafa menn miklar áhyggjur af því hvernig almannatryggingakerfið ræður við að greiða lífeyri til komandi kynslóða en mikil fjölgun verður í hópi þeirra sem þiggja lífeyri eftir 10 til 20 ár. Þá munar það fólk sem þá fer að taka út sinn lífeyri um að geta líka haft aðgengi að séreignarsparnaði.

Mér finnst gleymast í þessari umræðu hve mikið var gert á síðasta kjörtímabili í formi vaxtabóta og jöfnunaraðgerða, sérstakra vaxtabóta, húsaleigubóta; aðgerðir sem koma að miklu gagni fyrir utan þær leiðir sem nefndar voru hér áðan, sem fólk í þeim sporum naut góðs af. Nú sýnist mér það vera svo að það sé fyrst og fremst hópur hinna efnameiri sem sjái sæng sína upp reidda og hafi möguleika á að leggja fyrir fé, skattfrjálst, til að lækka skuldir sínar. Mér fyndist mjög forvitnilegt að það yrði greint vel hvernig þessar skuldalækkanir falla niður á þá hópa sem þar liggja undir. Ég er því miður hrædd um að það verði ekki það fólk sem raunverulega hefur það verst í dag.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði um það áðan að um væri að ræða hlutfall af tekjum fólks og láglaunafólk gæti sparað í séreignarsparnaði í hlutfalli við tekjur sínar og eðlilegt að það væri minna en þeir sem hefðu hærri tekjur og gætu nýtt sér til fulls þessi úrræði varðandi séreignarsparnaðinn. Maður spyr á móti, í samanburði milli hinna tekjuhærri og tekjulægri: Er ekki staða hinna tekjulægri miklu verri vegna þess að svo stórt hlutfall af lágum tekjum þeirra fer í framfærslu? Þarf ekki að beita jöfnunaraðgerðum þarna alveg eins og við höfum beitt jöfnunaraðgerðum í skattkerfinu með því að þrepaskipta því?

Ég vil líka velta því upp að það varð forsendubrestur víða. Það vill oft gleymast að það eru fleiri sem sátu uppi með lán sem voru ekki húsnæðislán. Lágtekjufólk hefur í gegnum tíðina oft þurft að taka neyslulán, verðtryggð neyslulán, til að brúa bil vegna þess að þegar eitthvað kemur upp á, óvænt útgjöld, veikindi og ýmislegt, fólk nær ekki endum saman, oft er tannlæknaþjónusta dýr hjá fólki sem er með lágar tekjur og mörg börn, þá stendur fólk frammi fyrir því, og gerði hér á árunum áður, þar sem við erum að tala um að forsendubrestur hafi orðið, að neyðast til að taka verðtryggð neyslulán. Það fólk fær enga umbun vegna þess. Eingöngu er horft til þeirra sem hafa verið með húsnæðislán.

Nú sýnist mér að enn og aftur sé verið að mæta þeim tekjuhærri af þessari hægri stjórn, en ekki þeim hópum sem virkilega þurfa á því að halda. Við gætum svo gjarnan nýtt þetta fjármagn miklu betur í að styðja þá hópa sem þurfa á því að halda með ýmsum aðgerðum. En við erum að fara, að mér finnst, illa með almannafé.

Ef við tökum sparnað ungs fólks, til þess að leggja fyrir vegna kaupa á framtíðarhúsnæði, finnst mér sú hugsun vera jákvæð, það er alltaf spurning um útfærslu. Ég þekkti vel þegar sparimerkin voru og sá sparnaður, skyldusparnaðurinn. Mér fannst það skynsamleg ráðstöfun á þeim tíma þó að margir hafi eflaust talið það forræðishyggju. Mér finnst það vera jákvætt innlegg í frumvarpinu að ungt fólk geti lagt fyrir í séreignarsparnað og hafi fimm ár til að leggja fyrir og ákveða hvort það nýti sér þá fjármuni í að kaupa sína fyrstu íbúð. Ég held að það sé af hinu góða.

Ég hef miklar efasemdir um aðrar ráðstafanir, að veita fólki með háar tekjur skattafslátt, allt að 600.000 kr., þegar þeir sem eru með miðlungstekjur geta með sambærilegum aðgerðum einungis fengið 300.000 kr. í skattafslátt — ég tel að þar sé verið að mismuna fólki eftir því hvar það er statt í tekjuskalanum. Mér finnst það ekki ásættanlegt að við förum þannig með framtíðarskattfé ríkisins að vera að hygla þeim hópum sem ekkert liggur fyrir um í dag, ekki með neinum hætti rökstutt, ekki neinir útreikningar, að þurfi virkilega á því að halda. Því miður hafa margir gengið allt of glæfralega fram í því að fjárfesta, hátekjufólk, og það á ekki að umbuna því fólki. Við skulum ekki gleyma því að landsbyggðin stendur að stærstum hluta fyrir utan þetta allt, vegna þess að ekki var farið (Forseti hringir.) í þessar miklu fjárfestingar á landsbyggðinni. Þessi niðurgreiðsla á skatttekjum nýtist þess vegna ekki því fólki.