143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi það að skattafslátturinn sé bundinn við það að menn greiði inn á höfuðstólinn, þá segi ég nú bara, nema hvað? Hvernig í ósköpunum hefðu menn átt að fara að leyfa úttekt á séreignarsparnaði til frjálsrar ráðstöfunar óskattað í einhverjum mæli, einhverjar upphæðir? En gagnvart þeim sem þegar hafa tekið út séreignarsparnað sinn og borgað af því fulla skatta og þeim sem síðar eiga eftir að taka út séreignarsparnað og borga af því fulla skatta, það er nú ekki mikil röksemd í málinu. En ég er út af fyrir sig sammála því að það er að breyttu breytanda skynsamleg ráðstöfun, ef fólk er að taka þetta út í mörgum tilvikum, að það fari inn á lækkun höfuðstóls.

Varðandi skattfrelsi, hvernig það kemur út og að þetta eigi bara að vera þessi 4+2% af launum manna upp að þakinu, verður því ekki á móti mælt að menn fá með þeirri aðferð þeim mun meiri meðgjöf frá ríkinu, þeim mun meira af framtíðarskatttekjum ríkis og sveitarfélaga er ráðstafað í meðgjöf í verkefnið eftir því sem launin eru hærri, upp að sjö hundruð og eitthvað þúsund krónum. Það er ekki náttúrulögmál, ekki algilt í skattaréttinum að það sé svona. Það eru engin rök finnst mér að við séum með prógressífan tekjuskatt í þremur, reyndar fjórum þrepum, 0,22 o.s.frv., gagnvart því að við gætum ekki haft öðruvísi útfærða skattalega ívilnun ef við svo kjósum í þessu tilviki. Ég bendi á mjög einfalda leið sem væri að mínu mati sanngjarnari gagnvart tekjulægri hópunum, það væri einfaldlega frítekjumark í vissri krónutölu eða einhvers konar persónufrádráttur gagnvart úttekt séreignarsparnaðar í þessu skyni, 250–300 þús. kr. af þessum 500 þús. kr. væri frítekjumark. Það þýddi að tekjulægri hóparnir fengju skattalegu ívilnunina að fullu en hún byrja að dofna út hjá hinum, hlutfallslega, og væri komin niður undir helming þegar við værum komnir í fulla úttekt, 500 þús. kr. úttekt á ári. (Forseti hringir.)