143. löggjafarþing — 90. fundur,  2. apr. 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrri úrræði þar sem fólk hefur fengið að taka það sem þegar hefur safnast fyrir í sjóðum, jafnvel þótt það hafi gerst á margra ára tímabili, og fékk að gera það, enda væri greiddur af því tekjuskattur, var sem sagt vegna sjóðsöfnunar sem þegar hafði átt sér stað. Ég tel að það hafi í sjálfu sér ekki verið nein mismunum gagnvart því fólki þótt við höfum nú sagt: Það sem safnast inn í sjóðinn frá 1. júlí í sumar má taka út skattfrjálst til frjálsrar ráðstöfunar. Það hefði í sjálfu sér ekki verið nein mismunum gagnvart þeim sem þá hefðu þegar greitt skatta af því sem í fortíðinni hafði safnast inn í sjóð. En við ákváðum ekki að gera það þannig, við erum þvert á móti að segja: Þetta er skattfrjálst eingöngu ef útgreiðslan er nýtt til að greiða inn á húsnæðislán.

Það kom til álita að setja það viðbótarskilyrði að lánið hefði verið verðtryggt á því árabili sem nefnt er sérstaklega í umræðunni, 2008, 2009, en við gerðum það ekki, til að létta líka undir með þeim sem voru með óverðtryggð lán eða höfðu verið með gengislán, eða einfaldlega meta það svo að þeir hafi þörf fyrir að létta skuldastöðu heimilisins. Þetta er samt bundið við það að lánið hafi verið tekið til öflunar eigin húsnæðis og það kom líka til álita í þessu efni að segja að þetta gæti eingöngu nýst í þeim tilgangi, enda væru menn þá þegar búnir að standa í skilum með sínar mánaðarlegu greiðslur, þ.e. að þetta væri viðbótarniðurgreiðsla á láninu af því að ella mundu menn geta skipt úrræðinu út fyrir þær greiðslur sem menn hefðu þegar gert ráð fyrir og með óbeinum hætti tekið þetta út sem ráðstöfunartekjur. En við gerðum það ekki heldur. En við greiðum með þessari leið út á þriggja mánaða fresti. Ég tel og það er mat okkar að þetta muni að uppistöðu til verða nýtt í þeim tilgangi (Forseti hringir.) að fara í viðbótaruppgreiðslu á höfuðstóli lánsins.