143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um ESB.

[15:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegu forseti. Ég vil gera að umtalsefni nýja skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sem kynnt var í morgun um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Hún vekur mikla athygli því að í henni kemur fram með skýrum hætti að viðræður um aðild að Evrópusambandinu voru í ágætisgangi og fengist hafði ágætisárangur í ferlinu sama við hvað er miðað. Ljóst er að sérlausnir höfðu verið viðurkenndar í ferlinu og því ekki hægt að halda því fram að útilokað sé að fá sérlausnir í aðildarumsóknarferlinu. Það kemur líka skýrt fram að hægt er að fá fullnægjandi lausnir fyrir sjávarútvegshagsmuni Íslands.

En efnahagskaflinn hlýtur að vekja mesta athygli þar sem rakinn er sá mikli velferðarábati sem við mundum njóta með upptöku evrunnar sem alþjóðlega viðurkennds gjaldmiðils sem hægt er að eiga viðskipti með hér sem annars staðar. Því fylgja lægri vextir fyrir fólk og fyrirtæki og gríðarlegur ávinningur að fastgengi í áranna rás. Dregið er fram með skýrum hætti að okkur hefur best vegnað í efnahagsmálum þegar við höfum afneitað gengisfellingarleiðinni og kosið að horfa til efnahagslegs stöðugleika í gegnum fast gengi. (Gripið fram í.)

Hæstv. fjármálaráðherra sagði um helgina allt aðra hluti á flokksfundi sínum, hann talaði um að valkostirnir væru bara tveir og að taka yrði kreppu út í gegnum gjaldmiðilinn og í gegnum vinnumarkaðinn. Hæstv. ráðherra mælti eiginlega fyrir gengisfellingum sem skynsamlegu stjórntæki okkar í framhaldinu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki ljóst af þeirri skýrslu sem nú liggur fyrir að það er eftir miklu að slægjast fyrir Ísland í stöðugu gengi, í því að láta sömu viðmið (Forseti hringir.) gilda um íslenskt atvinnulíf og atvinnulíf annarra þjóða og að þá farnist okkur best?