143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um ESB.

[15:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil frekar halda áfram með spurninguna og spyrja hæstv. fjármálaráðherra fyrst hann er svona hrifinn af aðlögunarhæfni íslensku krónunnar: Hvers vegna ætlar hann að flytja hér frumvarp á eftir sem felur í sér að létta kostnaði heimilanna af gengisfellingu krónunnar? Skuldavandinn er bein afleiðing þessarar marglofuðu aðlögunarhæfni hinnar íslensku krónu og hæstv. ráðherra ætti frekar að taka leiðsögn frá ungum hugrökkum þingmanni sem skrifaði árið 2008:

„Með upptöku nýs gjaldmiðils verða ekki öll hagstjórnarvandamál okkar leyst, langur vegur er þar í frá. Það er sanni nær að í slíkri ákvörðun felist að setja stöðugleikann í forgang og sætta sig við að geta ekki mætt sveiflum í hagkerfinu með aðlögun gengisins.“

Þetta sagði hv. þingmaður 2008 og hann bætti reyndar við þá og þá var það ekki vandamál að ríkisstjórn þyrfti ekki endilega að vilja aðild að Evrópusambandinu þá bætti hann því við að jafnvel þó Sjálfstæðisflokkurinn sem þá sat í ríkisstjórn mundi komast að þeirri niðurstöðu að hagsmunum Íslands væri best borgið utan Evrópusambandsins væri það í samræmi við ríka lýðræðishefð Sjálfstæðisflokksins að leggja málið að loknum viðræðum í dóm þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Þá var hann tilbúinn til þess. Hvað hefur breyst?