143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

gjaldmiðilsstefna.

[15:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri mun betra að eiga þessa umræðu við hæstv. fjármálaráðherra þegar hann hefur lesið meira en bara fyrirsagnir í blöðum um skýrsluna. Margt sem kom fram í orðum hæstv. ráðherra áðan held ég að væri öðruvísi ef hann hefði lesið skýrsluna. Það er til dæmis ágætlega rakið í kaflanum um efnahagsmál í skýrslunni sem kom út í dag að hér ríkti töluvert mikil velsæld þegar Ísland bjó við fast gengi og var skuggatengt við ERM I á árabilinu 1989–2001. Þá var hér lág verðbólga og það ríkti ákveðinn stöðugleiki.

Það er kannski vel við hæfi að spyrja hæstv. fjármálaráðherra fyrstu spurningar minnar svona: Er hann sammála því að þetta tímabil í efnahagssögu Íslendinga 1989, og í kjölfar þjóðarsáttarsamninga, til 2001, þegar við tókum upp fljótandi gengi, hafi verið velsældartímabil? Það er tímabil þar sem við uppfylltum Maastricht-skilyrðin. Þetta er ágætlega rakið í skýrslunni. Við bjuggum við beintengingu á ERM sem var undanfari evrunnar. Það væri fróðlegt að heyra álit hæstv. fjármálaráðherra á þessu.

Ég hjó eftir því í máli hæstv. fjármálaráðherra að hann tók undir að það væri nauðsynlegt að ræða þessi mál af yfirvegun og skynsemi, það væri ekkert svart/hvítt í þessu. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra það samrýmast markmiðinu um opna og yfirvegaða umræðu um þessi mikilvægu mál, þar sem ekkert er svart eða hvítt, að slíta viðræðunum við ESB á þessum tímapunkti og loka þar með öðrum valmöguleikanum sem er upptaka evru? Samrýmist það markmiðinu um yfirvegaða og skynsamlega umræðu?

Svo vil ég í þriðja lagi spyrja hvað hæstv. fjármálaráðherra á við þegar hann segir að sveiflurnar í krónunni og hrun hennar hafi komið atvinnulífinu til góða og segir jafnvel skynsamlegt að nýta sveiflurnar og hrun krónunnar í því skyni að bjarga atvinnulífinu, sem sagt gengisfellingarstefna. Hvernig getur hann í hinu orðinu talað um forsendubrest (Forseti hringir.) þegar hann fer í það að leiðrétta skuldir heimilanna?