143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

aðferðir við hvalveiðar.

[15:25]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að í hinum vestræna heimi leggjum við mikla áherslu á að þær skepnur sem við slátrum séu aflífaðar á mannúðlegan hátt. Það er auðvitað ekki gert alls staðar í öllum heimshlutum samkvæmt öðrum trúarbrögðum, þá eru notaðar aðrar aðferðir sem við höfum ekki sætt okkur við í hinum vestræna heimi og höfum þar af leiðandi ekki leyft þær hér á Íslandi.

Þær upplýsingar sem koma munu út úr þessum leiðangri verða án efa aðgengilegar, til þess er þetta gert. Verið er að safna upplýsingunum í opinberum tilgangi og því verða þær gerðar aðgengilegar og menn upplýstir um málið sem það vilja, þannig að ég tel að það sé nú bara nokkuð augljóst. Ég vonast til að af þessu verkefni verði, ég veit ekki annað en að svo verði og það hefur staðið til í nokkuð langan tíma. Menn hafa verið að reyna að tryggja fjármagn til þess að það geti orðið. Það þarf auðvitað að kaupa þessa sérfræðinga að, en ég ítreka að þær aðferðir sem hér eru notaðar eru þær sömu og notaðar eru til að mynda í Noregi og hafa verið viðurkenndar sem mannúðlegar aðferðir.