143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

aflaheimildir fiskvinnslunnar Vísis.

[15:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. fyrirspyrjanda að það eru veruleg vonbrigði að fyrirtækið skuli grípa til þessara ráðstafana og auðvitað er það verulegt áhyggjuefni fyrir þær byggðir sem byggja allt sitt á fiskvinnslu sem tengist rekstri einstaks fyrirtækis. Það má samt ekki slíta það úr stóra samhenginu, sjávarútvegur er auðvitað samkeppnisatvinnugrein sem keppir ekki bara hér innan lands, síður en svo, hann keppir líka á alþjóðamörkuðum og víðast hvar er staðan einfaldlega þannig að sjávarbyggðir, litlar sem stórar, þurfa í mörgum tilvikum að njóta verulegra ríkisstyrkja til þess að geta staðið undir sér. Við höfum hins vegar háttað því þannig hjá okkur að við höfum treyst atvinnugreininni til þess að byggja upp hagkvæma grein sem stenst samkeppni í alþjóðlegum samanburði, auðvitað með þeim göllum sem hagræðingin hefur í för með sér. Það þýðir að þegar fyrirtækin vaxa á einum stað með takmarkaða auðlind og minni fiskheimildir þá minnka þær óhjákvæmilega á einhverjum öðrum stöðum. Það hefur lengi verið viðfangsefni íslenskra stjórnmála, ekki bara er varðar sjávarútveginn heldur allar aðrar atvinnugreinar sem atvinnuvegir á landsbyggðinni þurfa að treysta á. Ef eitthvað gerist í öðrum atvinnugreinum, er þá því kerfi um að kenna, eða er það vegna einhverra annarra þátta?

Ég sé að nú gengur hratt á tíma minn til að svara spurningum hv. þingmanns, en ég get hins vegar sagt að ríkisstjórnin mun skoða þessi mál í grunninn og einnig ég sem sjávarútvegsráðherra. Ég hef átt fundi með sveitarstjórnum Djúpavogs og Húsavíkur (Forseti hringir.) og mun eiga fund með bæjarstjóranum á Ísafirði í þessari viku. Auk þess (Forseti hringir.) hef ég sett Byggðastofnun í að skoða ákveðna þætti. (Forseti hringir.) Það mun verða gert áfram.