143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

aflaheimildir fiskvinnslunnar Vísis.

[15:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Samfélagsleg ábyrgð er auðvitað býsna flókin. Samfélagsleg ábyrgð hefur m.a. birst í því að sjávarútvegur er ein öflugasta atvinnugrein á Íslandi og hefur staðið undir stærstum hluta útflutningstekna okkar um árabil og hefur ekki þurft á ríkisstuðningi að halda frá því að kvótakerfið var sett á laggirnar. Áður fyrr var þetta allt meira og minna í höndum ríkis og bæjarútgerða og allt var hér á hvínandi hausnum þótt menn veiddu tvöfalt eða (Gripið fram í.)jafnvel þrefalt það magn sem við veiðum nú,. Ég held því að við ættum að spara stóru orðin. Við stöndum hins vegar frammi fyrir ákveðnum vanda sem við þurfum að leysa. Það er fullur vilji til þess, bæði hjá ríkisstjórn, sjávarútvegsráðherra, ráðuneytinu og byggðamálaráðherra að skoða þetta mál algjörlega í grunninn, hver orsökin er fyrir þessu, hvaða leiðir eru færar til þess að tryggja fjölbreyttari atvinnu hringinn í kringum landið, hvað hægt er að gera í bráðavanda þessara byggðarlaga sem verða nú fyrir þessu gríðarlegu áfalli. Þar verður allt gert, því get ég lofað hv. þingmanni og (Forseti hringir.) þingheimi öllum.