143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Forsögu þessa máls þekkja allir en rétt er að rifja upp að Alþingi samþykkti hinn 28. júní síðastliðinn þingsályktunartillögu um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Frumvarp þetta á rætur að rekja til þeirrar vinnu sem hófst í kjölfarið á þingsályktuninni og er hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Í frumvarpinu er gerð ítarleg grein fyrir tillögu að leiðréttingu á verðtryggðum fasteignaveðlánum heimila á Íslandi. Lagt er til að ráðherra verði heimilað að gera samning við fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð um framkvæmd almennrar leiðréttingar vegna þeirra verðtryggðu fasteignaveðlána einstaklinga sem voru til staðar á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Í samningsheimild ráðherra felst jafnframt að semja um uppgjör vegna leiðréttingarinnar á þann veg að hvorki myndist hagnaður né tap við uppgjörið.

Frumvarpið hefur eins og ég sagði áðan að geyma ítarlega lýsingu á þeirri aðferð sem notuð verður við útreikninginn og alla framkvæmd hans. Í því kemur fram að umsóknarferlið verður alfarið rafrænt. Ríkisskattstjóraembættið mun halda utan um umsóknir í sérstöku tölvukerfi sem gegnir lykilhlutverki við alla útreikninga og er ætlað að stuðla að samræmdri framkvæmd á landsvísu.

Til að varpa skýrara ljósi á málið mun ég lýsa aðgerðinni eins og hún fer fram og í nokkurn veginn réttri tímaröð gagnvart einstaklingum. Leiðrétting getur í fyrsta lagi ekki fram nema að undangenginni umsókn. Umsókn skal beina til ríkisskattstjóra gegnum sérstakan vef eins og ég hef hér komið inn á. Gert er ráð fyrir að umsóknartímabilið hefjist 15. maí næstkomandi og að því ljúki 1. september 2014. Að fenginni umsókn mun ríkisskattstjóri kalla eftir öllum nauðsynlegum gögnum í gegnum rafrænt afgreiðslukerfi og umsækjandi þarf þar hvergi að koma nærri. Hér er einkum átt við upplýsingar um viðkomandi lán og þau úrræði sem umsækjandi hefur áður notið.

Útreikningur leiðréttingar tekur mið af þeim verðtryggðu fasteignaveðlánum sem til staðar voru á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Viðbótarskilyrði er að þessi lán hafi verið viðurkennd sem grundvöllur vaxtabóta.

Ég tel ástæðu til að taka strax fram að í því sambandi skiptir ekki máli hvort fólk fékk raunverulega greiddar vaxtabætur eða ekki. Í skilyrðinu felst að lánin verða að uppfylla þau form og efnisskilyrði að geta verið grundvöllur útreiknings vaxtabóta. Það þýðir að þau verða að hafa verið tekin vegna öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota og einnig verða þau að hafa verið talin fram á skattframtali með réttum hætti.

En áfram um útreikning leiðréttingar. Útgangspunkturinn er mismunur raunverðbóta og leiðréttra verðbóta. Um útreikninginn á þessum mismun er nánar fjallað í 7. gr. frumvarpsins og er hann framkvæmdur af lánveitanda. Lánveitandi miðlar svo niðurstöðum sínum rafrænt í afgreiðslukerfið hjá ríkisskattstjóra sem ég nefndi áður. Á þessa fjárhæð er sett það hámark að hún getur ekki orðið hærri en 4 millj. kr. fyrir hvert heimili. Frá þannig ákvarðaðri fjárhæð skal draga niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem glatað hafa veðtryggingu og hafa verið felld niður í kjölfarið. Frá henni dragast einnig þau fjárhagslegu úrræði sem gerð hafa verið fyrir atbeina stjórnvalda og sem rakin eru með tæmandi hætti í 8. gr. frumvarpsins. Hér undir fellur meðal annars lækkun skulda samkvæmt hinni svokölluðu 110%-leið, sérstakar vaxtaniðurgreiðslur og ákvarðaðar lánsveðsvaxtabætur.

Sú fjárhæð sem stendur eftir þegar búið er að draga frá þessa frádráttarliði nefnist leiðréttingarfjárhæð. Hún sætir einnig þeirri takmörkun að hún getur ekki orðið hærri en 4 millj. kr., eins og ég hef áður komið inn á, á hvert heimili miðað við árslok 2013. Þetta endurtekna hámark á fjárhæðina skýrist af því að heimilisaðstæður geta hafa breyst frá því á árunum 2008 til 2009.

Ef niðurstaða þessa útreiknings er 20 þús. kr. eða lægri fellur réttur til leiðréttingar niður. Ekki eru taldar forsendur til þess að ráðast í þá umsýslu sem fylgir leiðréttingu fyrir svo lága upphæð. Leiðréttingarfjárhæðin skal birt umsækjanda með rafrænum hætti og hefur hann þá þrjá mánuði til að fara fram á leiðréttingar á röngum upplýsingum og staðreyndum ef um eitthvað slíkt er að ræða. Ef umsækjandi hefur ekki athugasemdir skal hann samþykkja útreikninginn innan þriggja mánaða. Hafi hann á hinn bóginn athugasemdir við framkvæmd laganna og leiðréttingarfjárhæðina eða þær forsendur sem hún byggir á er honum heimilt að kæra niðurstöðuna til sérstakrar úrskurðarnefndar sem ráðherra skipar. Ef hvorugt er gert innan tilskilins frests er gengið út frá því í frumvarpinu að réttur til leiðréttingar falli niður. Það er þess vegna grundvallaratriði að fallist sé á þá útreikninga sem fylgja í kjölfar umsóknar til að leiðréttingin eigi sér stað.

Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað lið fyrir lið um framkvæmd leiðréttingarinnar. Sú leiðrétting sem samþykkt hefur verið af umsækjanda, og ekki sætir kæru, fer þannig fram að leiðréttingarfjárhæð er fyrst greidd inn á fasteignaveðkröfur sem glatað hafa veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu. Næst greiðist leiðréttingarfjárhæðin inn á fasteignaveðlán eftir veðröð, fyrst inn á lán á fyrsta veðrétti en ef það klárast er farið á annan veðrétt og svo koll af kolli. Frá þessu gildir þó það frávik að leiðréttingarfjárhæð sem er undir 200 þús. kr. verður ráðstafað sem sérstökum persónuafslætti. Ekki þykja forsendur til þess að skipta láni upp vegna fjárhæðar sem er undir því viðmiði.

Í þessu sambandi er verið að vísa til þess að leiðréttingarfjárhæðin fer inn á eins konar biðlán sem greiðist niður á fjórum árum. Ef heildarfjárhæðin sem leiðrétta á er undir 200 þús. kr. mundi það sem kæmi til útgreiðslu á hverju ári vera 50 þús. kr. eða minna. Í frumvarpinu er lagt til að þegar fjárhæðin er undir þessum viðmiðunarmörkum greiðist leiðréttingin út í gegnum skattkerfið með sérstökum persónuafslætti.

Ef greitt er inn á höfuðstól eða vanskil fasteignaveðláns er láninu skipt í frumhluta og leiðréttingarhluta. Ríkissjóður greiðir svo leiðréttingarhlutann samkvæmt áðurnefndu samkomulagi við lánveitendur en einstaklingurinn greiðir áfram af frumhlutanum. Leiðréttingarfjárhæð, sem er á bilinu 20–200 þúsund, myndar persónuafslátt en þann persónuafslátt má sem sagt nýta á fjórum árum. Hið sama gildir um leiðréttingarfjárhæð þess sem ekki er með fasteignaveðlán í dag, þ.e. ef ekkert lán er til staðar til að greiða inn á og fjárhæðin sem kemur út úr útreikningi vegna áranna 2008 og 2009 er yfir 200 þús. kr. er hægt að taka leiðréttinguna út í gegnum persónuafsláttinn á fjórum árum. Komið hafa upp í umræðunni tilvik þar sem fólk hefur selt húsnæði sitt, eftir atvikum misst húsnæði sitt, býr ekki lengur á landinu. Það getur notið persónuafsláttarins næstu fjögur árin kjósi það að koma aftur heim. Þetta gildir að sjálfsögðu fyrir alla þá sem eru á vinnumarkaði hér á landi.

Í frumvarpinu er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra skuli birta nánari reglur um ýmsa þætti um framkvæmd laganna. Þannig er meðal annars lagt til að hann geti í reglugerð fjallað um framkvæmd skiptingar fasteignaveðlána í frumhluta og leiðréttingarhluta. Þá er honum heimilað að birta nánari reglur í reglugerð um starfsemi sérstakrar úrskurðarnefndar sem lögð er til í 14. gr. frumvarpsins og ég hef hér stuttlega vikið að. Loks er í 17. gr. lagt til að honum verði heimilað að birta nánari reglur um samræmt verklag og viðmið við útreikning samkvæmt 7. gr. og frádráttarliði samkvæmt 8. gr. Með þessu verður enn frekar stuðlað að samræmdu verklagi við aðgerðina.

Við vinnslu frumvarpsins kom fram að óvissuþættirnir varðandi útreikninginn eru nokkrir. Til dæmis liggja þau úrræði sem fjallað er um í 8. gr. ekki fyrir með samanteknum hætti niður á heimili. Það getur því ekki ráðist fyllilega fyrr en að loknu umsóknartímabilinu hvort hið áður áformaða verðbólguviðmið passar nákvæmlega við það fjárframlag sem þegar hefur verið ákveðið á fjárlögum þessa árs.

Í 16. gr. frumvarpsins er áréttað að framlag til framkvæmdarinnar er háð samþykki Alþingis á fjárlögum hvers árs. Þar er einnig að finna umfjöllun um það hvernig brugðist skuli við ef ekki fást framlög á fjárlögum.

Í 19. gr frumvarpsins er að finna nokkrar tillögur að frávikum frá gildandi lögum. Þannig er til dæmis lagt til að leiðréttingarfjárhæðin teljist ekki til skattskyldra tekna og að hún skerði ekki rétt til ýmissa bótagreiðslna frá hinu opinbera.

Það er mikið grundvallaratriði varðandi þessa framkvæmd að leiðréttingarhluti lánsins verður til strax í upphafi. Það þýðir að lántakinn nýtur strax á fyrsta ári góðs af lægri greiðslubyrði, jafnvel þótt lánið sjálft greiðist ekki upp fyrr en að loknu þessu fjögurra ára tímabili.

Nú kann að fara svo að Alþingi ákveði að greiða upp leiðréttingarhluta lánsins fyrr. Við getum ekki sagt fyrir um það hvernig niðurstaða fæst í slík mál hér á þinginu í framtíðinni. Það breytir þó engu um það að sá sem skuldar lánið nýtur strax góðs af því þegar leiðréttingarhlutinn hefur orðið til, greiðslubyrði viðkomandi fellur þá strax á fyrsta ári þrátt fyrir að lánið sé enn á veðbókum skuldarans og að það greiðist upp yfir lengri tíma.

Þetta dregur með vissum hætti úr þensluhvetjandi áhrifum aðgerðarinnar vegna þess að það myndast ekki samstundis veðrými á heimilinu á fyrsta ári heldur myndast það eftir því sem lánið er greitt upp yfir tímabilið í heild sinni.

Það skiptir máli til þess að draga úr þensluhvetjandi áhrifum aðgerðarinnar ásamt því sem séreignarsparnaðarleiðin sem við ræddum fyrir helgi hvetur til frekari sparnaðar og dregur þannig sömuleiðis úr þensluhvetjandi áhrifum aðgerðarinnar.

Við höfum fengið útreikninga frá Seðlabankanum annars vegar og hins vegar frá fyrirtækinu Analytica um áhrifin. Það er að nokkru fjallað um það í frumvarpinu hvernig þau birtast okkur. Svona heilt yfir séð er ég þeirrar skoðunar að það sé vel innan viðunandi marka með hvaða hætti áhrifin koma út í hagkerfinu. Eftirspurn einkaaðila vex jú eitthvað en á það ber að líta að eftirspurn heimilanna hefur hríðfallið og er mjög lág í öllu sögulegu samhengi.

Það var ekki við öðru að búast en að eftirspurnin tæki við sér smám saman eftir því sem hagkerfið rétti úr kútnum. Ef þessi aðgerð má verða til þess að lyfta aðeins undir einkaneysluna er það í sjálfu sér ekki stórskaðlegt en að sjálfsögðu þurfum við að reisa hagkerfið fyrst og fremst við með því að auka útflutningstekjurnar og verðmætaskapandi fjárfestingar í hagkerfinu.

Þessi þáttur aðgerðar ríkisstjórnarinnar er að umfangi um 80 milljarðar, þ.e. þegar saman er tekinn sá hluti sem fer í beinar leiðréttingar og sá kostnaður sem fellur til vegna fjármagnskostnaðar er aðgerðin upp á 80 milljarða.

Það er ekki gott að segja til um það fyrir fram hver þátttaka verður í aðgerðinni en gera má ráð fyrir því að hún verði þó nokkuð mikil og við höfum ávallt gert ráð fyrir því að hún verði yfir 90%. Í frumvarpinu er gengið út frá því að hún verði um 92%. Það á eftir að koma í ljós. Eflaust er það svo að eftir því sem réttur til leiðréttingar á höfuðstól er meiri í krónum talið verður þátttakan meiri. Eftir því sem menn eiga væntingar um minni leiðréttingu geri ég frekar ráð fyrir því að þátttakan verði eitthvað lakari.

Þeir sem eiga samanlagt vegna áranna 2008 og 2009 í þeirri verðbólgu sem þá ríkti til dæmis innan við 200 þús. kr. eru að öllum líkindum ekki með mjög miklar væntingar til þess að aðgerðinni sé sérstaklega beint að þeim. Það kann að vera af ýmsum ástæðum. Það kann að vera vegna þess að þeir hafi einungis í brot af þeim tíma sem þarna er undir verið með verðtryggt lán. Það kann að vera vegna þess að þeir hafi þegar notið fyrri aðgerða upp á um 4 milljónir. Það er ekki gott að segja nákvæmlega hvernig háttar til hjá hverjum og einum en það kemur síðar í ljós. Ég mundi fyrir fram ganga út frá því að þátttakan hjá þeim sem búa við slíkar aðstæður yrði eitthvað aðeins lakari.

Þessi þátttaka getur skipt talsvert miklu máli eins og útreikningar bera með sér þegar kemur að heildaráhrifum aðgerðarinnar. Það er þó engum blöðum um það að fletta að þegar þessi aðgerð bætist ofan á það sem áður hefur verið gert og við leggjum hana síðan saman við það sem séreignarsparnaðarleiðin býður upp á náum við í þessu frumvarpi fram þeim heildaráhrifum sem svo lengi hefur verið að stefnt hér í þinginu, að rétta hlut heimilanna eftir það sem gerðist á árunum 2008 og 2009.

Það er engum blöðum um það að fletta.

Hér er verið að rétta hlut heimilanna. Sumir segja að aðgerðin gangi of langt. Aðrir segja að hún dreifi því sem er til skiptanna ekki með sanngjörnum hætti. Það er hægt að hafa endalausar skoðanir á þessu alveg eins og það var hægt að hafa endalausar skoðanir á því hvernig fyrri aðgerðir komu út, að menn skyldu þurfa að fara í langar biðraðir eftir hinum sértæku lausnum, að leiðréttingarviðmið áður upp á 110% gerðu ekki nægilega mikið fyrir fólk. Hægt er að hafa skoðanir á því og margir höfðu það sem stóðu hér fyrir utan lengi fram eftir síðasta kjörtímabili.

Það má eflaust hafa ýmsar skoðanir á því nákvæmlega með hvaða hætti þessi aðgerð birtist í framkvæmd en það er hins vegar ekki hægt að mótmæla því að hún er skjótvirk, hún snertir gríðarlega marga, hún er skilvirk vegna þess að hún gengur beint inn á höfuðstólinn og ég tel að það sé einn af stóru kostum þessarar aðgerðar að peningar eru ekki sendir úr ríkiskassanum heim til fólks heldur er skilyrt að það gangi beint til uppgreiðslu á höfuðstól lánanna, sem er mikilvægur þáttur í málinu. Markmiðið með þeim aðgerðum sem hér er gripið til er að lækka skuldastöðu heimilanna.

Í því samhengi er ástæða til að rifja það upp að íslensk heimili eru í sögulegu samhengi mjög skuldsett. Með fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á síðasta ári eru nokkuð skýrar myndir dregnar upp af því hvernig skuldastaðan hefur verið að þróast og að sjálfsögðu hefur í tengslum við kynningu á þessu máli verið farið vel yfir það. Við erum líka með mjög skuldsett heimili í alþjóðlegu samhengi og ég hef hér áður komið inn á það hvernig einkaneyslan hefur skroppið saman og hversu margir, eins og við vitum, hafa átt í erfiðleikum með að ná endum saman í lok mánaðar.

Þessar aðgerðir samanlagt, leiðrétting fasteignaveðlána höfuðstólsins og séreignarsparnaðarleiðin, munu fyrir mörg dæmigerð heimili með dæmigerð lán geta létt greiðslubyrðina sem nemur heilum mánaðarlaunum á ári.

Það verður ekki óalgengt að ráðstöfunartekjur vaxi um á bilinu 200–300 þús. kr. á ári. Það munar verulega um það. Það er ekki bara í eitt ár, það er í raun á meðan lánið lifir sem þau áhrif koma fram. Það er ekki einskiptis, það léttir undir með fólki frá því að leiðréttingarhluti lánsins verður til.

Það er líka hægt að segja að dæmigert lán geti lækkað um allt að 20% þegar þessar aðgerðir koma til framkvæmda. Það verða einhver lán sem lækka minna en 20%, það verða líka lán sem geta lækkað um meira en 20%. Tökum til dæmis 10 millj. kr. lán sem á rétt á leiðréttingu samkvæmt þessari leið og viðkomandi uppfyllir skilyrði þess að nýta sér séreignarsparnaðarleiðina að fullu, þá er séreignarsparnaðarhlutinn þegar orðinn 15% af heildarlánsfjárhæðinni. Svo þegar þetta bætist við er ljóst að viðkomandi heimili mun lækka skuldastöðu sína um meira en 20 milljónir. Fyrirgefið, 20% vildi ég sagt hafa. (KLM: Hitt hefði verið betra.) Það hefði verið fullmikið í lagt að lækka 10 milljóna lán um 20 milljónir. (KLM: En það hefði verið heimsmet.) [Hlátur í þingsal.]

Það er hægt að skoða lánastöðu íslenskra heimila út frá mörgum mælikvörðum. Hægt er að spyrja sig hvert meðalgildi útistandandi lána sé. Það er nærri 18 milljónum. Það er líka hægt að spyrja sig hvert miðgildið sé. Við getum raðað lánum upp eftir fjárhæðum og flokkað í tugprósentaflokka og séð að meiri hluti lánanna, meira en 50% af lánunum, er undir 15 milljónum. Það þýðir að geti viðkomandi heimili nýtt sér séreignarsparnaðarleiðina að fullu, en til þess þyrfti meðallaun hjóna, mun sú aðgerð ein og sér duga til að lækka lánið um 10% á þremur árum. Þar skiptir að sjálfsögðu miklu að ríkið kemur inn og veitir skattafslátt vegna séreignarsparnaðarins en heimilið hefur þá líka tekið ákvörðun um að verja sparnaðinum í þessum tilgangi.

Það er mjög mikill hvati til þess að gera það vegna þess að ávöxtunin af þeim sparnaði er frá því að hann er tekinn út í þessum tilgangi í raun og veru í kringum 40%, þ.e. því sem nemur skattinum.

Svo bætist þetta við og þá er augljóst að áhrifin eru orðin umtalsverð. Í þeim tölum sem ég hef hér verið að nefna, að dæmigert lán geti lækkað um 20%, og að greiðslubyrði geti dregist saman um sem nemur heilum mánaðarlaunum, um það bil dæmigerðum meðallaunum, tek ég þá ekki tillit til þess sem þegar hefur verið gert. Að sjálfsögðu komu ýmsar aðgerðir á síðasta kjörtímabili heimilunum mjög til góða. Mestu skiptir fyrir heimilin það sem gerðist í tengslum við ólögleg gengistryggð lán, krónulán með gengisvísitölu, dómar í þeim málum sem snertu bæði heimili og reyndar bíla líka, höfðu mest áhrif. Næstmest áhrif höfðu aðgerðir eins og 110%-leiðin og sérstöku vaxtaniðurgreiðslurnar, sem voru tugir milljarða, þar sem ákveðin eignaviðmið skertu rétt til bótanna.

Ef við tækjum með áhrifin af 110%-leiðinni og bættum við því sem gert hefur verið í séreignarsparnaðarleiðinni og bættum síðan þessu tvennu við séreignarsparnaðarleiðina sem er í fyrra frumvarpinu og svo leiðréttingunni sem hér kemur til sögunnar er alveg augljóst að um er að ræða heildarleiðréttingu vegna verðtryggðra lána sem sveiflast öðrum hvorum megin við 200 milljarðana. Það eru þá heildaráhrif þeirra aðgerða sem samþykktar hafa verið á þinginu frá upphafi síðasta kjörtímabils.

Með vísun í það held ég því fram að hér sé verið að reka smiðshöggið á verk sem hafi verið hálfklárað í upphafi þessa kjörtímabils. Það er ánægjulegt að það gerist strax á fyrsta þingvetri þessarar stjórnar. Þetta er mál sem tók þó nokkuð mikinn tíma í undirbúningi. Ég þakka öllum þeim sem stjórnkerfið hefur þurft að leita til og eiga samstarf við til að fá upplýsingar og vilyrði eða loforð um samstarf í framhaldinu. Það hefur verið mjög jákvætt að finna fyrir viðhorfi í lífeyriskerfinu til þess samstarfs sem nauðsynlegt er að eiga við það og hið sama gildir með fjármálafyrirtækin í landinu.

Það er ríkur vilji til þess að greiða sameiginlega úr málum þannig að framkvæmdin geti gengið snurðulaust fyrir sig. Það er líka mjög verðmætt fyrir okkur að geta gengið að þeirri miklu þekkingu sem er að finna hjá ríkisskattstjóra þegar kemur að rafrænni stjórnsýslu og getunni til þess að taka við þetta mörgum umsóknum eins og gert er ráð fyrir hér og láta þær ganga fram vélrænt að uppistöðu til.

Gengið er út frá því, eins og ég kom inn á áðan, að vefurinn nýtist í þessum tilgangi, ríkisskattstjóri er ekki bara verðlaunaður fyrir góð upplýsingakerfi heldur er hann ávallt að þróa kerfin. Í fyrra var metfjöldi í rafrænum skilum skattskýrslna þannig að mikil þekking hefur verið að safnast upp hjá því embætti á því að vinna með rafræn gögn og greiða úr umsóknum á borð við þær sem við leggjum hér upp með.

Ég vænti þess að þetta mál muni þurfa ítarlega meðferð í nefnd þó að málið sjálft sé orðið ágætlega kynnt. Verður brugðist við í ráðuneyti fjármála og efnahagsmála eins skjótt og hægt er og einnig við öllum beiðnum um frekari upplýsingar. Lagt hefur verið upp með að sem allra mest verði látið fylgja í greinargerð með frumvarpinu, þar með talið útreikningar. Við sjáum á bls. 15 og áfram í frumvarpinu sjálfu hvernig útreikningarnir koma út miðað við hinar ýmsu ólíku forsendur. Þar er hægt að sjá til dæmis hver fjárhæð niðurfærslunnar er flokkað niður eftir fjárhæðum og fjölda lána. Við sjáum til dæmis að þar er gert ráð fyrir því að rúmlega tuttugu þúsund lán muni lækka um á bilinu 0,5–1 millj. kr. og að önnur rúmlega sextán þúsund lán muni lækka um 1–1,5 millj. kr. Aftur á móti er gert ráð fyrir að rétt um eitt þúsund lán muni lækka um á bilinu 3,5–4 millj. kr. Langmesta tíðnin í fjárhæðum þegar horft er á einstök lán er á bilinu upp í 1,5 millj. kr.

Síðan er hér farið yfir hlutfall niðurfærslu og árstekna og meðalfjárhæð niðurfærslu. Það er áhugaverð samantekt sem sýnir hversu stór hluti aðgerðarinnar rennur til tekjulágra heimila, en tæplega helmingur aðgerðarinnar rennur til heimila þar sem árstekjurnar eru undir 6 milljónum, sem þýðir að mánaðartekjurnar eru 500 þús. kr. Rúmlega 60% renna til heimila þar sem árstekjurnar eru rétt um 8 milljónir.

Hér er líka farið eftir eftirstöðvum fasteignalána. Myndirnar tala fyrir sig sjálfar en þessar myndir saman, sem eru hér sex talsins, sýna til dæmis að ungt fólk, þ.e. fólk sem fætt er frá 1971 til 1980 samkvæmt skilgreiningunni, fólk sem er einu ári yngra en ég og aðeins yngra en það þannig að ég flokka þá ekki sjálfan mig lengur með því fólki — sá aldurshópur fær mesta niðurfærslu. Ég hygg að margir hér inni kannist við það að þessar ungu fjölskyldur í landinu töldu sig hafa verið skildar hér eftir á síðasta kjörtímabili. (Forseti hringir.) Það er ánægjulegt að sjá hversu hátt hlutfall heildarfjárhæðarinnar (Forseti hringir.) rennur til ungra fjölskyldna í landinu.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.