143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra þessa ræðu. Ég er með nokkrar spurningar sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að.

Í fyrsta lagi lýtur það að útreikningunum sem hæstv. ráðherra fór hér yfir þar sem ætlunin er að reikna út mismun raunverðbóta og leiðréttra verðbóta samkvæmt svokallaðri viðmiðunarvísitölu. Legið hefur fyrir að ástæða þess að farið er í þessa aðgerð er svokallaður forsendubrestur, þ.e. sú mikla verðbólga sem varð hér á árunum rétt fyrir hrun 2007 og 2008. Það var forsendan sem gefin var þegar upphaflegar hugmyndir voru kynntar hér í nóvember, en nú lítur það þannig út, og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt skilið, að ætlunin sé að setja þessa viðmiðunarvísitölu fram í reglugerð eftir samþykkt laganna. Er þá ekki verið að miða hana við þann forsendubrest sem menn gefa sér sem grunn aðgerðanna eða er ætlunin að reikna hana út út frá umfangi umsókna sem berast munu á þessum tíma, þessum glugga sem opnaður verður fyrir umsóknir? Það er spurning númer eitt. Ég hefði talið að skýr skilgreining á forsendubresti mætti koma fram í svona frumvarpi.

Síðan langar mig að inna hæstv. ráðherra eftir hvað honum finnist um þá umræðu sem uppi hefur verið um að ef slíkur forsendubrestur er viðurkenndur hvort hann eigi þá ekki við um fleiri verðtryggð lán. Námslánin hafa verið nefnd þar.

Síðan langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um fordæmið inn í framtíðina, því að meðan við erum með verðtryggingu og verðbólgu sem kann að blossa upp gætum við átt eftir að horfa framan í fleiri slíka forsendubresti. Hvað telur hæstv. ráðherra um þetta fordæmi? Telur hann að hér sé verið að leggja grunninn að því að farið verði í einhverjar svipaðar aðgerðir ef við eigum von á einhverjum fleiri slíkum áföllum?

Mig langar líka að nefna lánsveðshópinn hér, en ég geri það kannski í síðara andsvari mínu.