143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætisbyrjun að við hv. þingmaður séum sammála um að þörf hafi verið á aðgerðum og þá skiptir nú útfærslan miklu máli. Á síðasta kjörtímabili voru sendar út sérstakar vaxtabætur, það var með sínum hætti ríkisvæðing á einkaskuldum en við vorum samt sem áður sammála um þörfina á því að létta undir með fólki.

Höfum það í huga að 110%-leiðin gagnaðist bara þeim sem voru með skuldir yfir 110% og hjá Íbúðalánasjóði voru skilyrðin svo þröng að ekki nema annar hver maður sem átti rétt á að sækja um gerði það. Og af þeim sem sóttu um fékk bara helmingurinn umsóknina samþykkta. Það var því alveg ljóst að gríðarlega stór hópur fólks hafði, þrátt fyrir úrræði á borð við 110%-leiðina, annaðhvort ekki notið aðgerðanna, fengið höfnun, ekki sótt um vegna þess hversu skilyrðin voru þröng eða verið rétt undir viðmiðunarmörkunum, segjum t.d. skuldað 105%. Hver kannast ekki við dæmin um ungt fólk og bara venjulega borgara í þessu landi sem náðu einfaldlega ekki endum saman? Hver kannast ekki við öll uppboðin og árangurslausu fjárnámin og alla greiðsluerfiðleikana í samfélaginu? Þessi aðgerð er ætluð til þess að ljúka aðgerðum stjórnvalda vegna þessa mikla greiðsluvanda og hjá því verður ekki komist.

Varðandi það hvernig þessi leið fari saman með svona grunnstefnu af hálfu flokks míns þá tel ég að hún geri það reyndar ágætlega. Við töluðum fyrir því að menn gætu fengið skattafslátt ef þeir væru að greiða af húsnæðislánum. Það er meira að segja þannig í Bandaríkjunum og þar eru lítil fjárhæðarmörk en menn fá skattafslátt vegna vaxtaafborgana af húsnæði sem þeir búa í, jafnvel mjög hátt launað fólk í opnu frjálsu markaðshagkerfi eins og í Bandaríkjunum. Hér er farin sú leið að í stað þess að fá skattafslátt vegna (Forseti hringir.) afborgunarinnar þá kemur greiðsla (Forseti hringir.) í gegnum ríkissjóð beint inn á höfuðstólinn.