143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál verður allt svo einkennilegt þegar haft er í huga að með þessari aðgerð er ekki verið að leysa úr greiðsluvanda fólks. Aðrar aðgerðir gera það. Hér er bara verið að leiðrétta, eins og það kallast, einkaskuldir þvert yfir línuna, að vísu er það valkvætt. Ríkið er að bjóðast til að borga hluta af lánum fólks, algjörlega óháð því hvað það á að öðru leyti, algjörlega óháð því hvernig markaðurinn hefur þróast frá hruni. Ef ég skil svar hæstv. fjármálaráðherra rétt finnst mér þetta vera mjög merkileg stefnubreyting hjá formanni Sjálfstæðisflokksins hvað varðar hagstjórn almennt. Þetta er í raun og veru bara stórbrotið inngrip inn í markaðinn að mínu viti og réttlætissjónarmiðum er heldur ekki mætt. Hér er fullt af fólki sem með góðum rökum er hægt að halda fram að hafi orðið fyrir verulegum skakkaföllum í hruninu, t.d. leigjendur og fólk sem átti ekki neitt, það fær ekkert út úr þessu. Réttlætissjónarmiðum er því heldur ekki mætt þannig að það tvennt sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi sem rökstuðning fyrir því að fara í svona (Forseti hringir.) stórfelld ríkisafskipti af einkaskuldum, annars vegar til að koma til móts við þá sem eru í greiðsluvanda og hins vegar til að mæta réttlætissjónarmiðum (Forseti hringir.) — það stenst hvorugt.