143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst athyglisvert að hæstv. fjármálaráðherra missti út úr sér áðan að ef aðgerðirnar væru betur sniðnar að vandamálinu, sem er yfirlýst markmið að leysa, hefðu þær ekki eins mikil efnahagsleg áhrif. Markmiðið er með öðrum orðum í huga hæstv. fjármálaráðherra að koma peningum til fólks sem ekki hefur orðið fyrir forsendubresti í gegnum þessa aðgerð frekar en að leiðrétta forsendubrestinn enda er orðið forsendubrest hvergi að finna í frumvarpinu, hvorki textanum sjálfum né greinargerð.

Hæstv. ráðherra svarar því ekki af hverju maður sem kaupir húsnæði 1996 eða 1997, á þeim tíma þegar fasteignaverð var hér í sögulegu lágmarki, og hefur ekki átt nein viðskipti síðan þá, tók fyrir því til dæmis lífeyrissjóðslán eða húsnæðisstjórnarlán, á að fá fyrirgreiðslu af hálfu ríkisins. (Forseti hringir.) Hann hefur ekki orðið fyrir forsendubresti, virðulegur forseti, og hæstv. ráðherra þarf líka að svara hinni spurningunni sem ég beindi til hans um hin efnahagslegu áhrif. Þau virðist hann misskilja í grundvallaratriðum.