143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ánægjuefni að geta tekið til máls í umræðu um þetta stóra mál þó að 15 mínútur dugi engan veginn til að gera því lágmarksskil.

Vegna skýrslu Alþjóðamálastofnunar í dag um aðild að Evrópusambandinu og mikilvægi fastgengis í landinu og vegna ummæla hæstv. ráðherra sem mælir fyrir þessu máli um helgina vil ég í fyrsta lagi segja að þetta er væntanlega upphafið að langri vegferð sérsniðinna lausna. Hæstv. ráðherra hefur tekið sér það verkefni fyrir hendur að mæla sérstaklega bót stökkbreytingareðli íslenskrar krónu. Skuldavandi íslenskra heimila með reglulegu millibili undanfarna áratugi er bein afleiðing gengisfalls krónunnar í öllum tilvikum og skuldavandinn fylgir krónunni eins og nótt fylgir degi. Þeir sem vilja íslenska krónu með aðlögunarhæfni hennar eru jafnframt að kalla yfir þjóðina að verða áskrifandi að skuldavanda með reglulegu millibili.

Virðulegi forseti. Það er ekki bara krónan sem stökkbreytist og það er ekki bara þannig að hæstv. ráðherra sé að búa til fordæmi fyrir rosalegasta millifærslukerfi sem við eigum væntanlega eftir að sjá í íslenskri efnahagssögu ef það á að vera meginreglan að í kjölfar gengissveiflna sem verða með sama hætti og verið hefur hingað til standi Sjálfstæðisflokkurinn fyrir gríðarlega umfangsmiklum millifærslum sem hann getur ekki einu sinni útskýrt sjálfur hverjir eigi að fá eða af hverju. Það er fleira sem stökkbreytist en krónan sjálf. Þetta mál hefur sannarlega stökkbreyst frá því sem kynnt var í aðdraganda kosninga í fyrravor. Það er algjörlega horfin leiðrétting upp á 300 milljarða, (Gripið fram í.) sem lofað var, og málið sem okkur var kynnt af fjármálaráðherra og forsætisráðherra í Hörpu 30. nóvember hefur líka stökkbreyst. Þannig koma núna allt aðrar niðurstöður úr reikningsdæmum sem þá voru kynnt vegna þess að það er búið að breyta um forsendur til þess að draga enn úr umfangi aðgerðarinnar og breyta enn eðli hennar. Þess vegna lenti hæstv. forsætisráðherra í þeirri pínlegu stöðu um daginn í sjónvarpi að verða að viðurkenna að líklega mundi enginn fá 4 millj. kr. leiðréttinguna sem búið var að lofa.

Umfang þessarar aðgerðar upp á um 80 milljarða kr. er mjög svipað því mati sem við í Samfylkingunni lögðum fyrir síðustu kosningar á það sem eftir væri að gera í skuldamálum heimilanna. Og við lögðum til nákvæmlega þessa fjármögnunarleið, álagningu á fjármálafyrirtæki, en hins vegar fólust tillögur okkar í því að leysa raunverulega vandann sem við er að glíma, að skilgreina það fólk sem orðið hefði fyrir forsendubresti og bæta vanda þess, ekki dreifa peningum til annarra.

Hæstv. ráðherra talaði áðan fjálglega og af mikilli innlifun um þau tilvik sem okkur hefur öllum sviðið sárt að sjá á undanförnum árum, fólkið með 109%, fólkið með 108%, fólkið sem á erfitt með að láta enda ná saman. Þessi úrlausn hér lætur það fólk fá hlutfallslega minnst vegna þess að hæstv. ráðherra treystir sér ekki til að skilgreina hvað hinn raunverulegi forsendubrestur er og dreifir peningunum líka til þeirra sem ekki hafa orðið fyrir neinum forsendubresti, fólksins sem skuldar kannski 10% í húsunum sínum, fólks sem kannski er með húsnæðiskostnað sem er innan við 20% af ráðstöfunartekjum, jafnvel innan við 10%.

Það er athyglisvert að hæstv. ráðherra hefur engar upplýsingar getað sett fram um hversu hátt hlutfall stóreignafólks fær peninga, hversu hátt hlutfall af peningunum fer til þeirra sem eru með gríðarlega háar tekjur eða hversu hátt hlutfall það er sem fer til fólks sem ber mjög léttan húsnæðiskostnað, fólks sem keypti fyrir löngu og hefur aldrei orðið fyrir neinum forsendubresti því að húsnæðisverðið hefur hækkað meira en lánið. Það fólk er að fá peningagjöf og hæstv. ráðherra getur ekki bent á vandamál úr fortíðinni — sem vissulega eru fyrir hendi óleyst — og veigrar sér við því að skilgreina hinn raunverulega forsendubrest. Það var verkefnið sem við vorum að glíma við allt árið 2012, að reyna að finna leiðir til að ná til þess fólks sem eftir var.

Við í Samfylkingunni höfum djúpstæða tilfinningu fyrir því að það beri að miða við þá sem eru með raunverulegan forsendubrest, þá sem hafa orðið fyrir meiri hækkun skulda en sem nemur eignaverði, það sé fólkið sem liggi óbætt hjá garði og þurfi úrlausnar við. Hæstv. ráðherra talar um það fólk en tillögur hans fela í sér að hann er að dreifa peningum til allt annars fólks.

Virðulegi forseti. Efnahagsáhrif þessara aðgerða, eins og ég rakti í andsvari mínu áðan, eru neikvæð og hafa í för með sér kostnað fyrir þjóðina. Aðgerðin hefði komið betur út ef hún hefði komið á þeim tíma sem slaki var í hagkerfinu. Aðgerðir síðustu ríkisstjórnar sem hæstv. ráðherra var að gagnrýna voru nefnilega að hluta til valdar með það fyrir augum að þær hefðu jákvæð eftirspurnaráhrif á þeim tíma þegar aðstæður voru raunverulega með þeim hætti sem hæstv. ráðherra heldur greinilega að þær séu enn þá, að almenn eftirspurn og einkaneysla sé vandamálið í hagkerfinu. Ráðherra til upplýsingar ber að láta það koma skýrt fram að Seðlabankinn telur að tími slaka í hagkerfinu sé liðinn og þar af leiðandi kalli þessar aðgerðir á viðbragð af hálfu Seðlabankans, hærri vexti en ella vegna meiri verðbólgu en ella og vegna þrýstings á gengið og minni fjárfestingar en ella. Þetta eru staðreyndir og það er mjög sérkennilegt að heyra hér að hæstv. ráðherra virðist ekki hafa áttað sig á því.

Svo slær ríkisstjórnin úr og í þegar kemur að hinum meintu efnahagsáhrifum. Stundum eru þau mikil. Það er þegar hún slær sér á brjóst um hvað þetta sé stórkostlegt heimsmet. Þá eru efnahagsáhrifin mikil og þetta er grundvallarbreyting fyrir heimilin. En svo segir hún að þau séu hófleg þegar hún þarf að leiðrétta sullumbullið út frá augljósri verðbólguhættu og augljósum þrýstingi á gengið. Þá er þetta allt í einu hófleg aðgerð sem ekki muni hafa veruleg efnahagsáhrif. Hvort er það? Það er eðlilegt að maður spyrji. Hæstv. fjármálaráðherra sagði hvort tveggja í framsöguræðu og andsvörum áðan. En ríkisstjórnin fer ýmsar leiðir til að reyna að draga úr áhrifunum, koma í veg fyrir að fólk sem þarf á að halda fái einhverja úrlausn. Það gerist til dæmis með því hér, alveg eins og í séreignarsparnaðarfrumvarpinu, að ráðstafa greiðslum fyrst inn á greiðslujöfnunarreikning. Fólk er ekki að borga af greiðslujöfnunarreikningum í dag, fólk með háar skuldir sem þyrfti kannski á úrlausn að halda kann að vera í þeirri stöðu að allt að helmingurinn af niðurfærslunni sem það fær fari inn á greiðslujöfnunarreikning og lækki ekki greiðslubyrði þessa fólks um nokkurn skapaðan hlut, bæti bara aðeins stöðuna í bankanum fyrir bankann sjálfan. Þetta er aðgerð fyrir banka, ekki fyrir fólk.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er með slíkum eindæmum lögfræðilega séð að ég held að ég hafi aldrei séð annan eins óskapnað. Það er hvergi nein efnisviðmið að finna um forsendur þessarar peningaúthlutunar. Ríkisstjórninni til hróss verð ég þó að segja að það var reynt að gera það í sumar í þingsályktunartillögunni sem lögð var fram í júní. Þar var að finna skilgreiningu á forsendubrestinum. Það var það sem ríkisstjórnin sjálf kallaði verðbólguskot áranna 2007–2010. Nú er búið að breyta áraviðmiðinu, stytta tímann til þess einmitt líka að draga úr því að fólk fái úrlausn, skilja fleiri eftir með enga úrlausn og ekki er lengur talað um forsendubrest neins staðar í frumvarpinu.

Á hvað eru menn þá að horfa? Jú, það er frumvarp sem felur í sér peningaúthlutun án efnislegra viðmiða sem ég efast um að standist stjórnarskrá landsins. Það á enginn lögbundinn rétt samkvæmt þessu. Fyrst í 7. gr. frumvarpsins er að finna umfjöllun um hugtakið viðmiðunarvísitölu og það er hvergi skilgreint í frumvarpinu. Það á að greiða mun á viðmiðunarvísitölu og raunverulegri vísitölu. En ráðherrann á að ákveða vísitöluna einhvern tímann seinna. Á grundvelli þessara laga mun enginn geta krafist jafnréttis, t.d. fyrir dómstólum. Það er fullt valdframsal til ráðherra sem ákveður með reglugerð eftir á hvað hver fær mikið, ekki á grundvelli verðleika eða réttar borgaranna sem hægt er að prófa fyrir dómstóli eða úrskurðarnefnd, heldur til að halda útgjöldum í skefjum að eigin geðþótta eða bara einhverju öðru. Hann mun geta ákveðið þetta. Engin lögmælt málefnaleg rök, engin forsenda gefin fyrir þessari viðmiðunarvísitölu, hún er lesin í skýin. Þetta er undarlegt réttlæti og leikreglurnar eru engar.

Það er sett upp kærunefnd — en eftir hverju á hún að fara? Á hún að prófa útreikninginn? Er þetta stærðfræðikærunefnd? Af hverju eru þrír lögfræðingar í henni? Það er algjörlega tilgangslaust að hafa þrjá lögfræðinga í henni því að enginn borgari í landinu á efnislegan rétt samkvæmt lögunum — nema á grundvelli tilviljanakenndrar ákvörðunar hæstv. fjármálaráðherra. Ég spyr: Stenst valdframsal þetta til ráðherrans til að ákveða einhliða forsendur peningaúthlutunar úr ríkissjóði ákvæði stjórnarskrár Íslands? Það er óhjákvæmilegt að nefndin fari ítarlega yfir þetta atriði, kalli fyrir Ríkisendurskoðun og ríkislögmann og fari vandlega ofan í hinn lögfræðilega grunn þessa máls.

Virðulegi forseti. Lánsveðshópurinn er skilinn eftir. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað sagt að ástæða þess að hann hafi ekki efnt samkomulag sem síðasta ríkisstjórn gerði um úrlausn fyrir lánsveðshópinn hafi verið og sé sú að hann telji að lífeyrissjóðir hafi borið of lítinn hluta kostnaðarins af úrlausninni. Þeir áttu að borga 12%. Það er vissulega rétt að það er ekki mikið en það eru 12%. Hvað er gert hér núna? Það er engin sérstök úrlausn fyrir lánsveðshópinn sem þýðir að öll skuldalækkun lánsveðshópsins lendir á ríkinu. Ef menn hefðu verið búnir fyrir fram að efna hitt samkomulagið, láta lífeyrissjóðina axla 12% af því, hefði þeim mun minna komið á ríkið hér. Enn eitt glatað tækifæri og komið í veg fyrir að jafnræði borgaranna sé virt. Allt þetta mál er einhver hrikalegasta hörmungarsaga sem ég hef séð í lögfræðilegum búningi hvað það varðar að það er ekki reynt að byggja á jafnræði borgaranna. Það er ekki reynt að tryggja lánsveðshópnum sambærilega úrlausn og öðrum landsmönnum.

Virðulegi forseti. Síðan eru frádráttarliðirnir óendanlegir og ríkisstjórnin virðist ekki einu sinni skilja muninn á almennum aðgerðum síðustu ríkisstjórnar og sértækum. Hæstv. ráðherra sagði áðan að aðgerðir síðustu ríkisstjórnar hefðu allar falið í sér biðraðir. Það er ekki rétt. Margar þeirra voru ekki eftir ósk eins og sérstöku vaxtabæturnar.

Ríkisstjórnin er eins og sláttumaðurinn slyngi og slær allt, það er allt jafn fánýtt fyrir henni, það er allt dregið frá sem greitt hefur verið út á síðasta kjörtímabili, hvort heldur það er sértæk aðstoð eða almenn. Þessi ríkisstjórn þykist vera að koma með almenna úrlausn, af hverju dregur hún þá frá fyrri almennar úrlausnir? Það er algjörlega óskiljanlegt. Ef markmið hennar er að tryggja öðrum eitthvað sambærilegt og fólk í skuldavanda var búið að fá, af hverju eru allar skuldavandaúrlausnir dregnar frá?

Hér er til dæmis gert ráð fyrir að fólk sem hefur farið í gegnum sértæka skuldaaðlögun fái ekkert. Það fólk fór ekki í gegnum sértæka skuldaaðlögun af tilviljun. Það fór í gegnum sértæka skuldaaðlögun vegna þess að það var metið að það réði ekki við að borga meira en í niðurstöðu sértæku skuldaaðlögunarinnar fólst. Þeir sem hafa gengið í gegnum það vita að það var algjörlega leitað dyrum og dyngjum að allri greiðslugetu fólks. Það er nú þegar búið að laga greiðslubyrði þess að því sem það getur mögulega greitt. Eru menn að segja að það fólk sé þá ofhaldið, að greiðslubyrði þess, svo ákvörðuð, sé svo rausnarleg og rífleg að það sé markmið að lækka byrði einhverra allt annarra? Ef það á annað borð er einhver forsendubrestur sem hefur orðið með hruni gjaldmiðils, með skertum kaupmætti, á hann nákvæmlega jafn mikið við um þetta fólk sem er búið að fá sértæka úrlausn og alla aðra sem skulda 108% í húsinu sínu.

Virðulegi forseti. Markmið ríkisstjórnarinnar virðist vera að leggja sig fram um að fólk sem á erfitt með að láta enda ná saman fái lítið sem ekkert úr þessari aðgerð. Alls staðar í þessu frumvarpi er yfirvegað sneitt að fólki sem á erfitt með að láta enda ná saman. Málatilbúnaðurinn er slíkur að það verður (Forseti hringir.) vandaverk að fara í gegnum þetta sullumbull í nefndinni.