143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ósköp einfaldlega óumdeilt og óumdeilanlegt að skuldavandi íslenskra heimila, hvort sem er upp úr 1980 eða í kjölfar hrunsins, stafar af íslensku krónunni og innfluttri verðbólgu. Gengisfellingin fór beint út í verðlag í hruninu og það er einfaldlega þannig sem kjör almennings voru skert.

Ég er verkalýðssinni og tel ekki gott að búa almenningi í landinu þær starfsaðstæður að ríkið geti einhliða lækkað launin við fólk. Ég tel að það eigi að semja við fólk um launalækkanir. Ég tel líka að menn sem bera hag fyrirtækja fyrir brjósti geti ekki sætt sig við starfsumgjörð þeirra sem felst í að henni sé breytt einhliða og afturvirkt. Það er nákvæmlega þess vegna sem atvinnulífið í landinu kallar eftir (Forseti hringir.) annarri umgjörð.

Hv. þingmaður ætti líka að lesa skýrsluna sem kom út í morgun um kosti fastgengisstefnu fyrir Ísland og hversu vel hefur gengið í hagstjórn á Íslandi þegar við (Forseti hringir.) höfum kosið að horfa ekki til þess að fella gengið heldur halda stöðugu föstu gengi.