143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það komu engin rök fram hjá hv. þingmanni um að þetta væri eitthvað öðruvísi millifærslukerfi en vaxtabætur. Þetta er allt saman millifærslukerfi. Það má deila um forsendurnar, en þetta er hvort tveggja millifærslukerfi. (Gripið fram í.) Þetta er jafnmikið eða jafnlítið millifærslukerfi og vaxtabótakerfi og það má færa full rök fyrir því að menn hafi fengið vaxtabætur sem þurftu ekki á því að halda. Þetta er allt saman millifærslukerfi.

Hv. þingmaður segir að hann vilji ekki, eins og hann orðar það svo hógværlega, að menn geti ekki logið sig til valda. Ég veit að hv. þingmaður fékk að heyra það á síðasta kjörtímabili þegar Samfylkingin lofaði velferðarbrú að menn hefðu ekki staðið við það. Það er væntanlega ein af ástæðunum fyrir útreið Samfylkingarinnar í síðustu kosningum. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður (Forseti hringir.) leggur málin upp með þessum hætti en svo sannarlega er þetta jafnmikið eða jafnlítið millifærslukerfi eins og það sem hv. þingmaður talar fyrir.