143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að hv. þingmaður skuli tala eins og hann gerði í lokin áðan. Mér þætti vænt um að sjá framan í og ég á eftir að tala við það fólk sem ég talaði við í kosningabaráttunni í fyrra. Ég er ekki viss um að það sé sammála hv. þingmanni um að það hafi ekki orðið fyrir forsendubresti.

Mig langar að taka tvennt til umræðu. Það kemur fram í gögnum með frumvarpinu að 44% af leiðréttingunni renni til heimila með undir 6 milljónum í árstekjur, þ.e. tveir aðilar sem hafa meðaltekjur ASÍ. 60% renna til heimila sem hafa 8 milljónir í tekjur á hverju ári, t.d. hjón sem bæði fá laun samkvæmt meðaltali BSRB, annað í hálfu starfi. Er þetta hálaunafólkið sem hv. þingmaður var að tala um áðan? Ég veit að síðasta ríkisstjórn hækkaði skatta á því fólki og dró það upp um skattþrep af því að það var með svo ofboðslega mikil laun, er hv. þingmaður enn þeirrar skoðunar að þetta fólk sé hálaunafólk sem þurfi ekki á aðstoð að halda?