143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki nákvæmlega hvað ríkisstjórnin gerði undir lok síðasta kjörtímabils, en það sem ég var að vísa til var stefnumörkun okkar í Samfylkingunni sem byggði á greiningu á því sem við stóðum í á árinu 2012 og skilaði sér í kosningastefnu okkar í fyrra, um að það þyrfti að taka sérstaklega á vanda þess fólks sem ætti við raunverulegan forsendubrest að glíma og greina hann til fulls. Það var flókið úrlausnarefni. Við vorum að reyna ýmsar leiðir til þess, en það er auðvitað þetta fólk sem er með mikla greiðslubyrði án þess að fara yfir 110% sem gat ekki nýtt sér þá leið og það fólk sem keypti á versta tíma, eftir árið 2005. Það er fólk sem við getum raunverulega sagt að búi við forsendubrest.

Ég tek eftir því að enginn framsóknarmaður hefur reynt að spreyta sig á því að skilgreina hugtakið „forsendubrest“ í þessari umræðu og fjármálaráðherrann (Forseti hringir.) sprakk á limminu með það líka, en það þarf auðvitað að skilgreina hugtakið „forsendubrest“. Ástæðan fyrir því að ekki var lagður á ríkari bankaskattur (Forseti hringir.) en þá var gert var að beðið var eftir því að efnahagsreikningar þrotabúanna lægju fyrir þannig að hægt væri að leggja á þau (Forseti hringir.) skatt.