143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:11]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota tækifærið við 1. umr. um þetta mál, frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, til að koma með nokkrar athugasemdir.

Þetta er stórmál, þetta er málið sem litaði síðustu kosningabaráttu, þ.e. niðurfellingar verðtryggðra húsnæðislána. Það má segja að öll umræðan hafi snúist um þetta mál. Vissulega er hægt að segja að það hafi kannski orðið til góðs þegar þessar fyrstu hugmyndir voru kynntar í nóvemberlok því að það skýrði hvert var stefnt. Þó að kannski hafi hvergi verið lofað á prenti 240–300 milljarða lækkun verðtryggðra húsnæðislána eru það eigi að síður þær tölur sem voru uppi í umræðunni fyrir kosningar. Þá voru settar fram tölur og svigrúm sem gæti myndast í samningum við erlenda aðila, þrotabúin, og rætt var um að þetta svigrúm upp á 240–300 milljarða yrði nýtt til niðurfellingar fasteignalána.

Gott og vel. Það lá fyrir strax í nóvember að þetta yrði talsvert umfangsminni aðgerð. Það liggur fyrir eftir að samþykkt var á Alþingi að fara í þá skattheimtu sem þarf til að fjármagna hana að þetta yrði aðgerð upp á 80 milljarða sem má segja að sé núna upp á 72 milljarða þegar dreginn er frá allur kostnaður við verðbætur, vexti og umsýslu.

Það kom skýrt og heiðarlega fram hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan að ástæðan fyrir því að útfærslan er ekki alveg skilgreind í frumvarpinu heldur lögð í hendur ráðherra, þ.e. lagt til að sett verði reglugerð með viðmiðunarvísitölu sem skilgreini forsendubrest hvers og eins, ef við viljum nota það hugtak, sé sú að koma til móts við þá sem sækja um sem ekki er vitað hverjir verða innan þessa svigrúms sem er búið að móta. Það er orðin dálítið önnur hugsun en var í upphafi þegar rætt var um að hér ætti að koma til móts við forsendubrest þeirra sem hefðu tekið verðtryggð íbúðalán. Í raun er ekki verið að miða við einhverja tiltekna hlutfallslækkun heldur á að úthluta þessum peningum eftir ákveðnum formúleringum, út frá ákveðinni viðmiðunarvísitölu sem verður sett eftir á með reglugerð. Ég verð að segja að það væri mjög eðlilegt að Alþingi ræddi þá reglugerð, eins og hæstv. ráðherra tók undir, sem er þó ekki gert við venjulegar reglugerðir. Þarna er mjög mikið vald fært til ráðherra og útdeiling hárra fjárhæða. Því hefur verið velt upp af öðrum hv. þingmönnum hvort þetta standist. Í öllu falli er þarna verið að færa mjög mikið vald yfir til ráðherra með reglugerðarheimild og það er mjög mikilvægt að það verði skoðað í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hvernig nákvæmlega menn sjá fyrir sér þessa útfærslu.

Þessar hugmyndir hafa skroppið nokkuð saman frá því fyrir kosningar. Því ber ekki að leyna að hér er um að ræða það sem kalla má almenna aðgerð og mig langar að gera nokkur atriði að umtalsefni. Það eru hin félagslegu sjónarmið, réttlætissjónarmiðin, sem lúta að því að velta fyrir sér hvernig nákvæmlega þessi aðgerð dreifist á ólíka hópa. Nú liggur fyrir að hjá þeim sem hafa áður fengið aðstoð, fengið sérstakar vaxtabætur, farið í gegnum 110%-leið eða greiðsluaðlögun, dregst sú aðstoð frá möguleikum viðkomandi til að sækja sér leiðréttingu. Án þess að hægt sé að slá því föstu getur maður samt ekki ímyndað sér annað en að þeir aðilar sem hafi þurft að leita sér úrræða séu einmitt þeir sem hafi átt í mestum greiðsluörðugleikum. Það er það fólk sem ekki fær neina áframhaldandi úrlausn sinna mála með þessari aðgerð. Hér hefur líka verið bent á að þeir sem hafa meira en 12 milljónir í árstekjur fá um það bil 15% niðurfærslunnar. Hér var rætt talsvert um muninn á þessari aðgerð og til að mynda vaxtabótaúthlutuninni sem miðast við tekjur. Þessi aðgerð miðast hins vegar ekki við tekjur, hún hefur þar af leiðandi ekki þau jöfnunaráhrif sem ég hefði viljað sjá. Hún miðast væntanlega eingöngu við hlutfall af skuldastöðu að frádregnum fyrri aðgerðum.

Mér fannst raunar gott það sem ég skynjaði í þessari umræðu að núverandi ríkisstjórn hefur viðurkennt að mjög mikið hafi verið gert á síðasta kjörtímabili fyrir skuldug heimili. Það kom bæði fram í nóvember þegar farið var yfir aðgerðir fyrri ríkisstjórnar og líka í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að mjög mikið hafi verið gert á síðasta kjörtímabili. Þar var hins vegar gagnrýnt að alltaf væru einhverjir jaðarhópar sem ekki tækju þátt eða fengju. Það er alltaf þannig, sú gagnrýni getur líka átt við um úthlutun vaxtabóta og sameiginlegra gæða. Ýmsir verða út undan.

Hér stendur yfir vinna við mótun húsnæðisstefnu til framtíðar en það liggur ekkert fyrir hvaða niðurstaða verður úr þeirri vinnu. Okkur hefur verið kynnt skýrsla en menn eru ekki alveg búnir að ákveða hvert eigi að fara. Þar er lagt til að fara inn í hið svokallaða danska kerfi. Sú leið hefur líka verið gagnrýnd í opinberri umræðu, m.a. að skuldsetning þar sé ekki minni en hér. Eitt af því sem hefur líka verið bent á er að það er mjög líklegt að þá færist þessi húsnæðislánamarkaður alfarið yfir til hinna stóru viðskiptabanka. Er það æskileg þróun? Er það félagsleg þróun? Það er heldur ekki verið að huga að því hvort og hvernig eigi að þróa leigumarkað til framtíðar. Þar á eftir að taka ákvarðanir. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur sagt að þarna þurfi virkilega að kafa djúpt ofan í málin og velja leiðir til framtíðar.

Á sama tíma og við ætlum að afgreiða 80 milljarða aðgerð til niðurfærslu á húsnæðislánum með þeim hætti sem hér hefur verið lýst vitum við í raun ekkert hvert við erum að stefna í húsnæðismálum og erum ekki að koma til móts við mjög stóran hóp fólks. Ég nefni leigjendur, 30% fólks á húsnæðismarkaði eru leigjendur, þar af er stór hluti unga fólkið okkar, fólkið sem kemst ekki í eigið húsnæði, fólk sem er ekki í þeirri aðstöðu að geta safnað sér nægilegum fjármunum til að geta átt fyrir fyrstu afborgun, fólk sem fær hreinlega ekki greiðslumat en er eigi að síður að borga jafn háar eða jafnvel hærri upphæðir í leigu á almennum markaði. Sá hópur situr eftir með þessari aðgerð.

Ég velti fyrir mér hver skynsemin sé í því að taka ákvörðun um jafn mikla útdeilingu fjármuna um leið og við vitum ekkert hvert við erum að stefna til frambúðar í húsnæðismálum. Við erum ekkert búin að ræða hér hvernig við ætlum að taka til að mynda á þessu. Ætlum við að halda áfram með séreignarstefnu í húsnæðiskerfi? Hvernig ætlum við að útfæra hana? Hvernig ætlum við að tryggja félagslegt réttlæti í gegnum þá stefnu? Ætlum við að fara í það að þróa virkan leigumarkað eins og margir hafa bent á? Við erum ekki búin að taka neina ákvörðun um það. Á sama tíma ætlum við samt að taka þessa ákvörðun.

Nú kynnu einhverjir að segja: Já, en við erum þar að tala um fortíðina, hitt er framtíðarvandamál. En ég held að þarna þurfi að fara saman lærdómur af fortíðaraðgerðum og það að vita hvert við erum að stefna til framtíðar. Mér finnst þetta vera stórmál. Ég hefði viljað hafa nýja húsnæðisstefnu undir í þessum umræðum því að við erum í raun að ræða vanda sem vissulega er til staðar, þ.e. vanda þeirra sem hafa upplifað það að húsnæðislán þeirra hafa tekið miklum breytingum, en við erum ekki að velta fyrir okkur nákvæmlega hvernig þetta kerfi verður til framtíðar.

Eitt af því sem var líka bent á fyrir kosningar er að þeir sem tóku lán eftir 2004 — ég er ekki að segja að þetta sé algilt og það er auðvitað gallinn við allar aðgerðir sem ekki eru almennar, það eru alltaf einhverjir sem eru ekki undir — og einkum þeir sem keyptu fyrstu eign og nutu þar af leiðandi ekki hækkandi fasteignaverðs á markaði eru líklega verst settir vegna verðbólgunnar á árunum 2007–2008. Þarna hefði að minnsta kosti minn flokkur viljað skoða hvernig hið opinbera gæti komið til móts við þennan hóp sem rannsóknir sýna að er verst settur. Þessi verðbólga kom verr út fyrir hann en aðra hópa. Það er flókið að tala um forsendubrest þegar aðstæður eru svo ólíkar milli aðila.

Eins og ég nefndi í andsvari áðan má segja að forsendubrestur gæti líka átt við um námslánin sem hækkuðu sem og um alla skattgreiðendur sem urðu fyrir verulegum skakkaföllum vegna hrunsins.

Sumir keyptu þó eignir sem hafa hækkað síðan. Það hefur ekki átt við um allar eignir og þess vegna er svo erfitt eins og ég segi að sjá réttlætið út úr almennum aðgerðum á borð við þessa. Ég er nokkuð viss um að enginn hv. þingmaður stjórnarliðsins getur neitað því að við eigum væntanlega eftir að horfa upp á að ýmsir geti fengið leiðréttingu sem muni hjálpa þeim verulega og þeir hafa mikla þörf fyrir, en það er líka ljóst að ýmsir hafa ekki beinlínis þörf fyrir að fá fé úr ríkissjóði til að ná endum saman en munu samt geta fengið það fé. Það er stóra umhugsunarefnið, ekki síst þegar við komum að stóru línunum um forgangsröðun fjármuna. Ef unnt er að innheimta 80 milljarða í sameiginlega sjóði landsmanna hljótum við að spyrja hvernig skynsamlegast sé að verja þeim fjármunum.

Hér er lagt til að við verjum þeim í almenna aðgerð sem tekur í raun ekki tillit til tekna fólks og ekki þess hvernig fólki gengur að ná endum saman við það að greiða af sínum lánum heldur miðast við ákveðna niðurfærslu á skuldum. Á sama tíma horfum við á þá stöðu að ætlunin er að greiða niður skuldir þjóðarbúsins. Hæstv. fjármálaráðherra segir að í áætluninni sé gert ráð fyrir 17 milljörðum á ári. Það er gríðarlega mikilvæg fjárfesting til lengri tíma fyrir komandi kynslóðir, fyrir unga fólkið.

Á sama tíma þarf líka að styrkja innviðina. Hér hafa allir verið sammála um að það þurfi að styrkja heilbrigðiskerfið svo dæmi sé tekið. Ég get nefnt framhaldsskólana og háskólana sem mér verður nú tíðrætt um, háskólana sem hafa verið vanfjármagnaðir árum saman. Löngu fyrir hrun voru þeir langt undir öllu OECD-meðaltali. Þeir eru enn meira undirfjármagnaðir núna eftir niðurskurð undangenginna ára. Um framhaldsskólana má segja hið sama, það skólastig hefur svo sannarlega ekki verið ofhaldið. Ég velti fyrir mér hver sé skynsamlegasta fjárfestingin fyrir ríkið til framtíðar. Er það að fjárfesta í menntun og rannsóknum, greiða niður skuldir eða fara í þessa aðgerð sem vissulega mun koma til móts við vanda einhverra sem verulega þurfa á aðstoðinni að halda en líka verða til aðstoðar þeim sem þurfa ekkert sérstaklega á að halda fé úr sameiginlegum sjóðum?

Þetta er stóra forgangsmálið, en það lá alveg ljóst fyrir að þetta var stóra mál Framsóknarflokksins sem vissulega líklega vann kosningasigur út á nákvæmlega þetta mál þó að það hafi kannski verið umfangsmeira í aðdraganda kosninga en núna.

Gott og vel, en ég tel að minnsta kosti að þetta mál hafi verið meðal þess sem skipti verulegu máli fyrir kosningar. Það breytir því þó ekki að gagnrýni mín á aðferðafræði málsins er alveg sú sama. Ég tel hana ekki endilega skynsamlega til lengri tíma og ég tel að hún sé ekki endilega réttlát heldur.

Það eru nokkur smærri atriði sem mig langar að nefna — og þó ekki, m.a. þetta sem ég var búin að nefna, þ.e. að færa þetta mikla fjárúthlutunarvald til hæstv. ráðherra með reglugerð. Ég fagna því sem hann sagði áðan um að hann teldi eðlilegt að þetta kæmi til umræðu á þinginu. Mér finnst rétt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði sérstaklega hvort það þurfi jafnvel að koma skýrar til kasta þingsins en bara með umræðu eða kynningu. Ég held að í öllu falli sé mjög mikilvægt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi einhverja hugmynd um hvernig nákvæmlega þetta verður útfært áður en frá málinu verður gengið.

Ég nefndi í andsvari lánsveðshópinn sem trúlega er sá hópur sem hefur átt í hvað mestum vanda. Lengi hefur verið reynt að ná samkomulagi við lífeyrissjóðina um að koma til móts við þann hóp. Drög að slíku samkomulagi lágu fyrir fyrir síðustu kosningar. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að hann telji að framlag lífeyrissjóðanna inn í það samkomulag hafi verið of lágt. Það eru alveg gild sjónarmið ef hann telur það en það þarf hins vegar að vinna að því að leysa það mál. Sá hópur er í mjög erfiðri stöðu.

Hér hefur verið rætt um jaðartilvikin. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd þarf að fara djúpt í það hvort siglt hafi verið fyrir hverja vík. Hvernig kemur þetta til að mynda út fyrir þá sem fluttu til útlanda, seldu eignir og hafa ekki snúið aftur eða eru þeir utan þessa hóps? Eru einhverjir hópar eða aðrir sem munu lenda út úr menginu?

Hér áttu borgarar almennt von á því að svokölluð reiknivél yrði sett upp og fólk gæti áttað sig betur á stöðunni. Það hefur verið skýrt af hverju hún hafi ekki verið sett upp. Menn treysta sér hreinlega ekki til að ákvarða niðurfærsluna á hvern og einn fyrr en fjöldi umsókna liggur fyrir. Ég held að það sé hins vegar mikilvægt að almenningur í landinu geti gert sér grófa hugmynd um það. Það kemur þá aftur að reglugerðinni sem á eftir að setja. Þetta er nokkuð sem ég tel að hv. efnahags- og viðskiptanefnd þurfi líka að skoða.

Tími minn er búinn þannig að ég lýk hér máli mínu.