143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:26]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Mér finnst mikilvægt að draga fram í umræðunni að það hafa verið tvö meginrök fyrir leiðréttingunum, annars vegar forsendubrestur og hins vegar réttlætissjónarmið. Það var þannig þegar menn fóru af stað með umræðuna um það við hvað ætti að miða þegar rætt var um forsendubrest að það voru breytingar á lánum umfram efri vikmörk Seðlabankans sem voru 4%. Í skýrslunni sem kom í nóvember var sú tala komin upp í 4,8% og þar með hafði leiðréttingin náttúrlega minnkað mikið. Það sem er athyglisvert er að í þessu frumvarpi eru þær tölur dottnar út og ekkert nefndar. Það er líka athyglisvert að tímabilið sem var lagt undir í upphafi, það voru hækkanir umfram 4% eða 4,8% eftir því hvað maður miðar við, var tímabilið 2007–2010. Í frumvarpinu er búið að stytta það í 2008 og 2009. Hefur hv. þingmaður skýringar á þeim breytingum, eða finnst henni hún hafa fengið skýringar á því?

Eitt af úrræðunum sem gripið var til af fyrri ríkisstjórn var greiðslujöfnunarvísitala og greiðslujöfnun þar sem frestað var afborgunum á meðan ástandið var tilgreint miðað við atvinnuleysi og tekjur. Það vakti athygli mína að nú er komið inn í þetta frumvarp að þegar höfuðstólsleiðrétting á sér stað á fyrst að greiða upp þá greiðslujöfnun. Það á að koma fyrst til lækkunar og þar með missa menn þann möguleika sem átti að vera til staðar að ef menn væru ekki búnir að greiða lánið niður á tilgreindum tíma mundi það falla niður í lokin. Sá hluti virðist eiga að falla út. Kann hv. þingmaður einhverja skýringu á því hvað veldur? Þarna var verið að beita gömlu aðferðinni sem notuð var á Sigtúns-hópinn upp úr 1980, (Forseti hringir.) að búa til þessa greiðslujöfnunarvísitölu.