143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni þessa spurningu. Eins og hann fór yfir liggur fyrir að þessar tillögur hafa breyst, bæði frá því sem var kynnt í nóvember og þingsályktunartillögunni sem var samþykkt í sumar. Tímabilið þar var 2007– 2010 og það var skilgreint þannig að verðbólgan hefði verið 4,8% sem meðalverðbólga áranna 2001–2007, en nú er eingöngu verið að tala um verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009 og eins og ég fór yfir áðan í raun verið að færa þessa viðmiðunarvísitölu í hendur hæstv. ráðherra. Það kom fram í skýringu hæstv. ráðherra að þarna þurfi að halda þessu opnu af því að óvíst er til hvers fjármunirnir dugi, það sé einungis heimild fyrir tilteknum fjármunum og þess vegna þurfi í raun og veru að miða niðurfellingu á hvern og einn við þá fjárhæð sem er úr að spila. Það eru náttúrlega 72 milljarðar á fjórum árum. Þetta gerir það að verkum að hér eru þær tölur ekki ræddar. Það er auðvitað annað en var kynnt. Ég lít svo á að þetta hafi verið skýrt hér. Þá erum við komin að því að kannski er erfitt að tala um forsendubrest í tengslum við þetta frumvarp. Þarna er fremur verið að ráðast í einhvers konar almenna niðurfellingu án þess að hún sé beintengd verðbólgunni prósentulega séð.

Hvað varðar greiðslujöfnunina er auðvitað líka mikilvægt að skoða, og það er eitt af því sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd þarf að gera, að þeir sem hafa fengið fyrri úrræði, líklega er það rökstutt með því að þau eigi öll að koma til frádráttar en í tilfelli greiðslujöfnunarinnar þarf væntanlega að skoða það sérstaklega í ljósi þess að þar hafa fólki verið gefnar ákveðnar forsendur sem þarf svo að standa við. Mér finnst mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari ofan í það mál.