143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er þetta almenn aðgerð. Þegar ég segi sértæk aðgerð er ég að meina að hún er einstök. Farið er í hana núna út af tilteknum aðstæðum. Ekki rétt? Mér finnst hv. þingmaður vera að snúa út úr orðum mínum með því að láta að því liggja að ég sé að rugla saman almennu kerfi og sértækum aðgerðum. Þetta er væntanlega aðgerð sem við köllum einstaka í þeirri merkingu að farið er í hana í eitt skipti, þetta er ekki varanleg útdeiling fjármuna, eða hvað? Þess vegna hlýtur hún vissulega að vera sértæk þó hún sé útfærð með almennum hætti.

Hvað varðar tekjudreifinguna, þá voru í sambandi við sérstöku vaxtabæturnar efri mörk á eignum sett sem viðmið. Að því leytinu til var ekki tekið tillit til tekna. En mér finnst eðlilegt að skoða þetta samspil, annars vegar tekna og hins vegar eigna og skulda, þegar verið er að ráðast í aðgerðir þannig að við séum ekki bara að horfa á skuldastöðu heldur líka tekjur. Það má segja að flestar aðgerðir síðustu ríkisstjórnar hafi miðast, þegar við tölum um 110% (Forseti hringir.) leiðina, greiðsluerfiðleikaleiðina, við að eiga við greiðsluvanda.