143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:42]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða spurningu. Það eru náttúrlega málefnaleg rök fyrir hverri þeirri leið sem farin er. Mín skoðun er sú að það svigrúm sem við höfum eigi að nota að hluta til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. En það lá fyrir fyrir kosningar að minn flokkur telur mjög mikilvægt að við förum að byggja upp innviðina. Ég nefndi hér heilbrigðiskerfið, ég nefndi fjárfestingu í menntun og rannsóknum sem ég tel að sé besta leiðin til að fá hér langtímavöxt, sjálfbæran vöxt.

Ég segi það líka að ég hefði viljað sjá það, og það sögðum við líka fyrir kosningar, að hluti þessa svigrúms væri nýttur. Þá vorum við sérstaklega með í huga lántakendur á árunum 2004–2008 sem verða fyrir mesta áfallinu af verðbólgunni, ekki síst þeir sem voru að kaupa fyrstu íbúð og nutu þar af leiðandi ekki góðs af hækkandi fasteignaverði eins og aðrir þeir sem hugsanlega seldu á þessum tíma og keyptu. Það kallar á flóknari útfærslu, því að þá er verið að horfa á hvert og eitt mál. Það sem hv. þingmaður nefnir hér; ég ætla ekkert að draga úr því að hér er skoðanamunur um það hvernig eigi að forgangsraða þessum fjármunum. Það geta verið ýmis góð málefnaleg rök fyrir hverri leið.