143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:43]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun verðtryggðra fasteignaveðlána. Frumvarpið er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna.

Skuldavandi heimilanna er að miklu leyti afleiðing af hruni fjármálakerfisins sem hafði í för með sér mikla og ófyrirséða hækkun á verðtryggðum húsnæðislánum, einkum á árunum 2008 og 2009. Hér hafa áður orðið verðbólguskot og hér hafa áður orðið gengislækkanir en í þessu tilfelli hafa hagstærðir þróast með neikvæðari hætti en oft áður og hagkerfið hefur verið lengur að ná sér á strik. Gríðarleg skuldsetning heimilanna er af mörgum talinn orsakaþáttur í því hve þjóðarbúið hefur verið lengi að jafna sig nú samanborið við fyrri samdráttarskeið enda er skuldsetning heimila ríflega tvöfalt hærri nú en hún var fyrir 20 árum síðan.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru ríflega 14% fjölskyldna þar sem meðalaldur er lægri en 40 ára í vanskilum árið 2012 og 40% fjölskyldna þar sem meðalaldur er 30–40 ár töldu húsnæðiskostnað þunga byrði. Samanlagt eru þetta 45.100 heimili í erfiðleikum vegna þungrar skuldabyrði. Skuldir íslenskra heimila sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru 108% í árslok 2013 en það er með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Um 18 þúsund fjölskyldur eru með neikvætt eigið fé þrátt fyrir sértækar aðgerðir fyrri ríkisstjórnar.

Há skuldsetning heimila dregur úr krafti efnahagslífsins. 30% heimila eru í vanskilum eða nærri því, sem er langt yfir því að vera viðunandi ástand. Greiðslubyrði heimila er almennt of þung og hagvöxtur og fjárfesting hafa verið undir meðaltali. Minni hagvöxtur bitnar ekki bara á heimilum heldur einnig á lántakendum, skattgreiðendum, ríkissjóði og í raun flestum í hagkerfinu. Það er öllum í hag að létt verði á skuldabyrði heimilanna.

Leiðréttingin er ekki bara skynsamleg efnahagsaðgerð. Hún miðar einnig að því að rétta hlut þeirra tugþúsunda heimila sem urðu fyrir forsendubresti með ófyrirséðri hækkun verðtryggðra húsnæðislána. Þegar heilt hagkerfi verður fyrir áfalli sem rýrir flestar eignir, sjálfan gjaldmiðilinn, og skerðir kaupmátt launa, er alls ekki sjálfgefið að skuldakröfur á heimili séu það eina sem haldi fullu verðgildi. Það má líka spyrja hvort það sé yfirleitt eðlilegt að heimilin geti með því einu að taka verðtryggt lán veitt lánastofnunum tryggingu gegn verðbólguskotum af hvaða stærðargráðu sem er og leggi þar að veði aleigu sína og framtíðartekjur.

Verðtryggt lán felur vissulega í sér væntingar um að lántakandi bæti lánveitanda upp þá kaupmáttarrýrnun sem leiðir af verðbólgu. En ef verðbólgan fer langt fram úr öllum eðlilegum væntingum hlýtur það að teljast forsendubrestur og sanngjarnt að báðir aðilar skipti með sér tjóninu. Að mínum dómi er afar ósanngjarnt að lántakendur sitji einir uppi með tjónið, ekki síst í ljósi þess að það voru bankar sem orsökuðu forsendubrestinn en ekki heimilin.

Verði frumvarpið að lögum má ætla að 70 þúsund heimili njóti lækkunar á höfuðstól verðtryggðra íbúðalána sem nemur allt að 80 milljörðum króna á fjórum árum. Skuldalækkunin er nauðsynleg því skuldsetning íslenskra heimila er allt of mikil og skuldalækkunin er sanngjörn því að heimilin hafa verið látin axla forsendubrestinn ein og óstudd.

Ég fagna því að þetta mikilvæga mál sé komið loksins til þingsins í frumvarpsformi og bind vonir við að hv. þingmenn minni hlutans sem hafa í mörgum þingræðum lýst sig reiðubúna til að greiða götu leiðréttingar í þágu heimilanna standi nú við þau góðu áform. Ég hlakka til að taka þátt í málefnalegri og uppbyggilegri umræðu um málið hér í þingsal.

Frumvarpið sem við ræðum er vönduð útfærsla á býsna flóknu verkefni. Forsætisráðherra skipaði í ágúst sérfræðihóp, undir forustu Sigurðar Hannessonar, sem vann tillögur að aðgerðum og kynnti þær í nóvember. Í janúar tók við starfshópur skipaður af fjármála- og efnahagsráðherra undir forustu Tryggva Þórs Herbertssonar. Starfshópurinn hefur umsjón með undirbúningi og hefur samið það frumvarp sem við ræðum hér. Frumvarpið byggir því á vinnu sérfræðinga, starfsfólks ráðuneyta og ríkisskattstjóra að höfðu samráði við fulltrúa lánastofnana. Allir sem komu að verkinu eiga heiður skilinn fyrir vandaða og góða útfærslu. Ég færi þeim bestu þakkir.

Meginatriði frumvarpsins felast í því að ráðherra verði heimilt að semja við lánveitendur um framkvæmd á almennri leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána einstaklinga um fjárhæð sem svarar til verðbóta umfram tiltekið viðmið á árunum 2008 og 2009 en þó að hámarki 4 milljónir fyrir hvert heimili á tímabilinu. Til frádráttar koma fyrri úrræði sem skuldari kann að hafa notið. Gert er ráð fyrir að skuldari sæki um leiðréttingu og höfuðstóli lána verði skipt upp í frumhluta og leiðréttingarhluta. Heimilin greiði áfram af frumhlutanum en ríkissjóður greiði leiðréttingarhlutann niður á fjórum árum með heimild í fjárlögum hvers árs. Leiðréttingarhlutinn verði þó áfram á ábyrgð skuldara þar til hann er uppgreiddur, í síðasta lagi 31. desember árið 2017.

Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við höfuðstólslækkunina verði 80 milljarðar á fjórum árum. Framlag til lækkunarinnar ár hvert er háð samþykki Alþingis. Á fjárlögum ársins 2014 var samþykkt að verja 20 milljörðum kr. í aðgerðina á þessu ári. Matsfyrirtækin hafa fjallað um leiðréttinguna í skýrslum sínum og þau telja áhrifin á lánshæfi ríkissjóðs alls ekki neikvæð. Frá því að leiðréttingin var kynnt í nóvember hefur lánshæfismat ríkissjóðs verið að styrkjast og horfur breyst úr neikvæðum í stöðugar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fengið kynningu á leiðréttingunni en ekki séð ástæðu til þess að gera veigamiklar athugasemdir.

Fyrri ríkisstjórn stóð fyrir ýmsum sértækum úrræðum vegna skuldavanda en þau beindust að vel afmörkuðum hópum og nýttust því ekki nema litlum hluta þeirra heimila sem urðu fyrir forsendubrestinum. Heimili sem höfðu tekið gengistryggð húsnæðislán fengu þau lækkuð fyrir dómstólum um 110 milljarða. Heimili sem áttu sparnað í bönkum eða sjóðum sem féllu fengu björgun á kostnað ríkisins. En þau heimili sem höfðu tekið verðtryggð lán og tókst að standa í skilum með þau hafa að mestu legið óbætt hjá garði. Nú er komið að þeim stóra hópi að fá leiðréttingu.

Áhrif leiðréttingarinnar verða augljóslega mjög jákvæð fyrir þau 70 þúsund heimili sem geta nýtt sér hana. Skuldsetning heimilanna mun lækka um 80 milljarða og greiðslubyrði þeirra mun minnka. Þrátt fyrir að greiðslubyrðin lækki strax mun veðrými heimilanna ekki aukast fyrr en leiðréttingarhluti lánanna hefur verið greiddur upp, sem gerist í skrefum á fjórum árum. Það ætti því að vera lítil hætta á því að aðgerðin leiði til skyndilegrar aukningar á skuldsettri neyslu. Engu að síður varar Seðlabankinn við því að aðgerðin geti hugsanlega valdið aukinni verðbólgu og veikara gengi krónu. Ráðgjafarfyrirtækið Analytica telur að áhrif á hagkerfið verði tiltölulega mild. Sú skoðun byggir m.a. á því hver efnahagsáhrif urðu af 100 milljarða lækkun gengislána og 46 milljarða lækkun vegna 110%-leiðar. Þrátt fyrir þær miklu leiðréttingar hefur verðbólga farið minnkandi, hagvöxtur hefur aukist, afgangur af vöruskiptum verið mikill og gengi krónunnar er að styrkjast. Hvorki Seðlabankinn né Analytica gerðu ráð fyrir því að við höfuðstólslækkun yrði fyrst gengið á greiðslujöfnunarreikninga, en það þýðir að einkaneysla mun aukast eitthvað minna.

Áætlað er að flest heimili muni fá höfuðstólslækkun á bilinu 0,5–1,5 millj. kr. Rúmlega 60% af umfangi leiðréttingarinnar munu renna til heimila með tekjur undir 660 þús. kr. á mánuði og 44% renni til heimila með tekjur undir 500 þús. kr. á mánuði. Meira en helmingur af umfangi leiðréttingarinnar rennur til fjölskyldna með börn undir 18 ára aldri.

Virðulegi forseti. Almenn leiðrétting á verðtryggðum húsnæðislánum er löngu tímabær og ég fagna því að frumvarp ríkisstjórnarinnar sé komið til þingsins. Leiðréttingin er almenn aðgerð sem mun hafa jákvæð áhrif á hag heimilanna og efnahagslífið í heild í landinu.

Ég vil að lokum lýsa ánægju með það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á verkefninu og ítreka þakkir til allra þeirra sem lögðu metnað sinn í að gera leiðréttinguna sem best úr garði.