143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:55]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann vel að vera að í þessu tilviki hafi fjármálakerfið haft áhrif til falls krónunnar en það eru fjölmörg önnur dæmi um verðbólguskot í fortíðinni. Ég ítreka þess vegna spurninguna: Af hverju er tekið á þessu máli með þessum hætti nú, sérstaklega í ljósi þess sem hv. þingmaður rakti líka, að fjöldi fólks er enn í erfiðleikum vegna þungrar skuldabyrði. Það er nákvæmlega enginn áhugi á að leiðrétta það í frumvarpinu. Það er engin greining á því hverjir eru í alvarlegum skuldavanda og aðstoð beint að þeim. Þvert á móti leggja menn lykkju á leið sína til að undanskilja sérstaklega þá sem eru í miklum skuldavanda og eru búnir að fara í sértæka skuldaaðlögun og slíkt, og passa að peningarnir renni til þeirra sem eru ekki í neinum skuldavanda og kunna að hafa tekið lán fyrir löngu, löngu síðan. Af hverju var aðgerðin ekki afmörkuð við lán sem voru tekin, segjum bara 2003 eða seinna eða 2002 eða seinna? 2005 hefði auðvitað (Forseti hringir.) verið eðlilegra. Af hverju er þetta ekki afmarkað á einn eða annan hátt?