143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:56]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Páli fyrir spurninguna en hún var í ansi mörgum liðum.

Varðandi hættuna á því að þetta gerist aftur hef ég ekki áhyggjur af að þessi aðgerð muni skapa fordæmi fyrir önnur stjórnvöld síðari tíma, ekkert lagalega bindandi fordæmi, þó að ráðist sé í hana með þessum hætti. Aðstæður núna eru mjög sérstakar. Ég á ekki von á því að hér verði aftur látið líðast að peningamagn í umferð fimmfaldist á fimm árum. Ég á ekki von á því að í framtíðinni verði jafn víðtæk verðtrygging og verið hefur hér til þessa. Þetta eru tvö atriði sem við þurfum að fyrirbyggja að verði í framtíðinni. Þá verður óþarfi að ráðast aftur í svona almennar aðgerðir eins og hér hefur þurft að gera.