143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni fyrir ræðu sína. Hann spurði mig áðan hvort ég teldi vera málefnaleg rök fyrir þeirri leið sem hér er farin. Ég benti á að þetta væri stórpólitískt mál sem hefði hlotið mikla umfjöllun og að sjálfsögðu væru málefnaleg rök fyrir því, en ég væri ósammála forgangsröðuninni.

Mig langar að spyrja hann á móti: Telur hann málefnaleg rök fyrir því að nýta þetta svigrúm til að mynda að hluta til í að greiða niður skuldir ríkisins og styrkja innviðina? Kom það til greina við skoðun þessa máls eða var bara ákveðið að fara beint í þessa leið?

Hitt langar mig að spyrja hv. þingmann um: Hefur hann ekki áhyggjur af því, ef verðbólga verður, að almenningur í landinu muni þar með ekki finna fyrir áhrifum skuldaleiðréttingar þar sem hún muni hverfa í verðbólgu?