143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:01]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég treysti mér til að fara út í bollaleggingar um það hvernig þetta svigrúm mun verða til á þessum tímapunkti. Það er kannski best að segja sem minnst um það einmitt núna. Þó að ég sé þeirrar trúar að það verði vil ég kannski ekki fara út í það í smáatriðum.

Varðandi það hvort hætta sé á verðbólguskoti sem muni síðan eyða þeim ávinningi sem heimilin hafa af þessari leiðréttingu þá er ég ekki hræddur um að hann hverfi. Hagfræðingar hafa fjallað um þessa spurningu í fjölmiðlum undanfarið og komist að ýmsum niðurstöðum, og ég er hallur undir þá skoðun að verðmæti leiðréttingarinnar gagnvart fólki muni haldast, jafnvel þótt hér kæmi örlítil verðbólga í framhaldinu. Það er kannski aðalniðurstaðan, að því gefnu að laun fólks hækki líka í því verðbólguskoti með tímanum.