143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:03]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir þessa spurningu. Hann veltir fyrir sér, vegna þess að aðgerðin nær ekki til allra og fólk getur vissulega verið í mismunandi aðstæðum, hvort aðgerðin geti þá verið almenn. Ég held að svo sé. Hún snertir 70 þúsund heimili en hún er ekki altæk, hún er ekki lausn á öllum vandamálum allra í öllum mögulegum aðstæðum. Það er hún ekki og það hefur aldrei verið sagt. Það var alltaf sagt að hér stæði til að leiðrétta stökkbreytt gengistryggð húsnæðislán með almennri aðgerð og um það snýst þessi aðgerð.