143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:10]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og vil byrja á að svara þessu með vanskilin. Í ræðu minni sagði ég ekki að 30% væru í vanskilum heldur í vanskilum og í erfiðleikum, ættu erfitt, væru með þunga greiðslubyrði. Afsakið ef það hefur ekki heyrst nægilega skýrt.

Hv. þingmaður hefur líka tekið eftir því að á Írlandi lækkaði fasteignaverð um 50%. Írar voru með evrurnar í Dyflinni eða hvar það var. Þetta fer eftir því hve mikið áfallið er hvað þessi lækkun verður mikil. Vissulega lækkaði líka raunvirði eigna hérna en þetta lýtur að því að hérna þurfti fólk ekki að verða atvinnulaust í jafn miklum mæli. Þegar gengi krónunnar fellur lækka eignir líka sem og vissulega laun og kaupmáttur allra hluta. Það sem við þurfum að gera á Íslandi er að taka úr sambandi þá virkni að skuldir heimila séu verðtryggðar og haldi einar verðgildi sínu. (Forseti hringir.) Það skemmir virkni kerfisins og við þurfum að laga það.