143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætislífsreynsla að sitja undir þessari umræðu og lesa í sömu andrá frumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra var að leggja fram, um opinber fjármál. Þar koma fram ágætisgrunngildi sem hafa skal að leiðarljósi við meðferð opinberra fjármála. Til dæmis sjálfbærni, að þær ákvarðanir sem við tökum núna skapi ekki byrðar á komandi kynslóðir.

Mæta þessi skuldaleiðréttingaráform þeim mælikvarða vel? Við erum ekki að nota þá fjármuni til dæmis til að fara í viðhald á vegum. Hvenær ætlum við að fara í viðhald á vegum, fyrir hvaða pening? Ætlum við að velta því yfir á komandi kynslóðir? Velferðarkerfið, Landspítalinn, við munum heyra það næst þegar við förum í fjárlög að þar er gríðarleg fjárþörf til fjárfestinga og viðhaldsverkefna.(Forseti hringir.) Hvenær ætlum við að fara í það, fyrir hvaða pening? Hvenær ætlum við að byggja (Forseti hringir.) upp menntakerfið, hvenær ætlum við að fara í (Forseti hringir.) nýfjárfestingar í atvinnulífi til að auka fjölbreytni þar? Fyrir hvaða pening? Ætlum við að velta þessu öllu á komandi kynslóðir?