143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mest af öllu vil ég þakka honum fyrir hreinskilnina og heiðarleikann sem hann og flokkur hans sýna með því að neita að taka á með íslenskum heimilum á þennan hátt. Það er fullkomlega galin afstaða að mínu mati en hún er heiðarleg og hreinskilin.

Ég hitti ekki sama fólk og hv. þingmaður. Ég hitti ekki ríka menn í vesturbænum eða útlendinga. Ég hitti hins vegar í kosningabaráttunni í fyrra hundruð eða þúsundir Íslendinga sem áttu það allir sammerkt að vera með lág lán sem voru samt of há fyrir þá, sem áttu það sameiginlegt að vera í þeim hópi manna sem hafði ekki fengið leiðréttingu mála sinna líkt og þeir sem höfðu tekið gengistryggð lán. Ég spyr hv. þingmann einfaldlega: Hvernig getur aðgerð sem snertir 80% íslenskra heimila á einn eða annan hátt ekki talist almenn aðgerð?