143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Mér þykir vænt um að hv. þingmaður nefnir leigjendur vegna þess að það er alveg rétt hjá honum að ekki er hægt að leysa mál allra með einni aðferð og einni leið. Nú get ég tekið undir með Forrest Gump sem sagði: Ég er ekki mjög gáfaður maður. En ég veit þó að leigjendur eru ekki með húsnæðislán, það veit ég.

Það segir í frumvarpinu hér að það sé sett fram til að leiðrétta forsendubrest sem þeir sem voru með verðtryggð lán urðu fyrir á árunum 2008–2009. Ekki leigjendur að þessu sinni, það er að vísu að koma ágætisálit nefndar sem hefur verið að taka á málum leigjenda t.d. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ekki viturlegt að segja að ein leið eigi að duga öllum og það dugar ekki ein leið öllum.

Það er aftur á móti nauðsynlegt fyrir okkur, og þess vegna er þetta sett fram, að leiðrétta forsendubrest hóps sem sannarlega sat eftir á sínum tíma.