143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við erum að ræða skuldaleiðréttingarfrumvarp Framsóknarflokksins og ég ætla að nálgast það út frá því hvernig þetta frumvarp uppfyllir kosningaloforð flokksins. Við byrjum bara á að skoða ályktun frá 32. flokksþingi framsóknarmanna sem var haldið snemma á síðasta ári, fyrir kosningarnar. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Framsóknarflokkurinn vill að stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur til lausnar skuldavanda heimila. Afstaða Framsóknarflokksins er eindregið sú að ekkert geti réttlætt að lánþegar verðtryggðra húsnæðislána sitji einir uppi með afleiðingar þess að lánin stökkbreyttust af völdum efnahagshruns.“

Þetta ratar síðan sem slagorð inn í áróðursbækling flokksins fyrir kosningarnar þar sem segir:

„Framsókn fyrir heimilin.

Framsókn vill takast á við vanda heimilanna á þrennum vígstöðvum.“

Ein vígstaðan er að vinna úr skuldavandanum sem ekki var tekið á eftir efnahagshrunið.

Hvernig á að útfæra þetta? Þá komum við nær ályktun flokksþingsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við viljum að svigrúm sem skapast við uppgjör þrotabúa bankanna verði nýtt til að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán.“

Og áfram:

„Ekkert réttlætir að lánþegar sitji einir uppi með afleiðingar stökkbreytingar lána af völdum efnahagshrunsins.“

Þarna er komið útfærsluatriði um að það skuli nýta þetta svigrúm sem skapast við uppgjör þrotabúanna.

Að auki er annað atriði sem tengist þessum skuldaleiðréttingum, með leyfi forseta:

„… að skattafsláttur verði veittur vegna afborgana húsnæðislána og upphæð afsláttarins greiðist beint inn á höfuðstól lánsins.“

Þetta ratar ágætlega þarna inn en hvernig ratar þetta inn í stjórnarsáttmálann? Þar kemur fram að þegar kemur að hinni ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkun verðtryggðra lána sé grunnviðmiðið „að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum“.

Þarna er byrjað að þrengja það við hvaða ár eigi að miða, árin 2007–2010. Verðbólguskotið er það sem á að leiðrétta.

Hvernig ratar þetta síðan inn í frumvarpið hérna? Búið er að þrengja örlítið meira, eins og segir um markmið laganna í 1. gr.:

„Markmið laga þessara er að kveða á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggingu fasteignaveðlána heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 – 31. desember 2009.“

Þarna er búið að þrengja niður í árin 2008–2009 þetta verðbólguskot sem á að taka tillit til.

Þetta er bara það sem er á pappír. Öll höfum við horft á YouTube-vídeó af viðtölum við framsóknarflokksþingmenn fyrir kosningarnar. Maður sér alveg hvaða væntingar voru uppi hjá kjósendum og það var ekkert slegið á þær væntingar, sama hvort þær voru réttar eða rangar, það er alveg ljóst. Menn geta örugglega rifist endalaust um hver hafi sagt hvað um þetta, t.d. hvenær 300 milljarða króna talan kom upp.

Ég heyrði fréttamann nefna hana og það var ekki slegið á væntingarnar heldur talað um að svigrúm yrði að skapast. (Gripið fram í: Fréttamaðurinn var ekki í framboði …) Nei, nákvæmlega, fréttamaðurinn var ekki í framboði en það var ekki slegið á væntingarnar og talað bara um að þetta svigrúm yrði að skapa.

Spyrja má: Við hverju búast kjósendur? Við skulum skoða það. Við getum skoðað það út frá fylgistapi Framsóknarflokksins frá kosningum. Það segir okkur til um hvaða væntingar voru miðað við það hvernig væntingarnar eru síðan í dag, hvernig fólki finnst það hafa upplifað að það væri verið að bregðast því sem það vænti þegar það var í kjörklefanum.

Í kosningunum fékk Framsóknarflokkurinn 24,4% og er í nýjustu könnuninni sem birtist í dag frá MMR kominn niður í 14,4% þannig að þetta er 10 prósentustiga lækkun á fylgi. Það er alveg augljóst að kjósendur flokksins hafa orðið fyrir vonbrigðum miðað við það sem þeir bjuggust við fyrir kosningarnar.

Þessar tölur miða að vísu ekki við frumvarpið sem er að koma fram núna en þær miða samt sem áður við útfærsluna sem var kynnt nýlega og það er í þessum tölum.

Ég vil nefna það sem hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson nefndi áðan um hvað gerðist á síðasta kjörtímabili. Mestu áhrif til lækkunar lána á síðasta kjörtímabili voru vegna dóms um ólögmæti gengistryggingarinnar. Þetta á mjög líklega eftir að gerast líka á þessu kjörtímabili því að verðtrygging á húsnæðislánum hefur verið ólöglega útfærð. Það er dómsmál um það. Þeim sem lesa lögin er nokkuð ljóst að hún hefur verið ólöglega útfærð. Neytendastofa hefur gefið út tilskipun um að lánin hafi verið ólöglega útfærð en dómstólar eiga eftir að taka af allan vafa. Hagsmunasamtök heimilanna eru með dóm núna um ólöglega útfærslu á verðtryggðu neytendaláni hjá sjóðnum og ef dómur fellur í Hæstarétti um verðtryggð húsnæðislán á þann veg mun það leiða til mikillar leiðréttingar á verðtryggðum húsnæðislánum.

Þá spyr maður: Er ekki hægt að gera eitthvað til að flýta því máli þannig að við fáum botn í þetta, þannig að réttarstaða lántakenda sé tryggð? Við píratar lofuðum ekki fyrir kosningar neinum skuldaleiðréttingum. Það sem við sögðum var að við mundum berjast fyrir réttarstöðu lántakenda. Það er það sem við höfum verið að gera, það sem við erum að gera og það sem við munum halda áfram að gera. Þá spyr maður: Er eitthvað slíkt úr stefnu og kosningaloforðum Framsóknarflokksins að finna í stjórnarsáttmálanum?

Já, heldur betur. Í ályktunum 32. flokksþings framsóknarmanna snemma á síðasta ári segir, með leyfi forseta:

„Brýnt er að lausn fáist sem fyrst í dómsmál varðandi skuldir heimilanna en ólíðandi er hve langan tíma hefur tekið að greiða úr málum, því skal tryggja flýtimeðferð slíkra mála.“

Og viti menn, hæstv. innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, lagði fram frumvarp á sumarþinginu um flýtimeðferð dómsmála sem hafa að gera með verðtryggingu og gengistryggð lán — og fékk það samþykkt. Nú eru Hagsmunasamtök heimilanna farin af stað með þetta mál um réttmæta skilmála og útfærslu á verðtryggðum húsnæðislánum hjá Íbúðalánasjóði. Það er líka búið að skapa svigrúm, innanríkisráðherra tryggði það svigrúm alveg fram í september að ekki sé hægt að vísa fólki út af heimilum sínum.

Svigrúmið er komið, skjól fyrir fólkið, flýtimeðferðin hefur verið tryggð í lögum, en nú vill Íbúðalánasjóður vísa þessu máli frá. Ég hef eftir áreiðanlegum heimildum að hæstv. húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, hafi heimildir til að skipa Íbúðalánasjóði fyrir í þessum málum. Ekki vísa þessu máli frá, tryggjum heldur að við fáum botn í þetta meðan enn er skjól fyrir heimilin fram í september.

Skoðum svo hvernig það rataði inn að það sé brýnt að fá úrlausn sem fyrst í dómsmáli er varðar skuldir heimilanna. Það er ólíðandi hve langan tíma það tekur að greiða úr þeim málum. Um þetta ályktaði flokksþing framsóknarmanna á síðasta ári. Hvernig rataði það inn í kosningabæklinginn? Jú, þar segir, með leyfi forseta:

„Við viljum tryggja flýtimeðferð dómsmála sem varða skuldir heimilanna.“

Hæstv. húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir getur flýtt þessu dómsmáli með því að fara fram á það við yfirstjórn Íbúðalánasjóðs að vísa ekki málinu frá, heldur fá botn í þetta.

Hvernig ratar þetta síðan inn í stjórnarsáttmálann? Þar segir, með leyfi forseta:

„Unnið verður að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál, sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja, fái eins hraða meðferð og mögulegt er. Óvissu um stöðu lántakenda gagnvart lánastofnunum“ — þar með talið Íbúðalánasjóði — „verður að linna.“

Það er alveg ljóst af lestri ályktana flokksþings framsóknarmanna fyrir kosningar, kosningaloforðanna og ríkisstjórnarsáttmálans að þetta á að gera. Og hæstv. húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, getur gripið inn í þannig að við fáum loksins botn í það hver réttarstaða lántakenda er gagnvart verðtryggðum húsnæðislánum og menn geti farið að reikna upp hvað þeir skulda lánastofnunum sínum.