143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:04]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir. Á bls. 12 í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að það er mikil óvissa. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að mikil óvissa er um heildaráhrif aðgerðanna og áhættuþættir eru fjölmargir.“

Það er tekið fram í frumvarpinu að ekki sé ljóst hvaða áhrif þessi aðgerð muni hafa á efnahagslífið og þá um leið á kjör fólksins í landinu. Það hlýtur að vera. Þó er vitað að meðalfjárhæð á hvert heimili hækkar eftir því sem tekjur eru hærri.

Ég held að kjósendur hafi staðið í þeirri trú að þessar aðgerðir sem meðal annars Framsóknarflokkurinn boðaði, hann var kannski rausnarlegastur í sínum kosningaloforðum, yrðu til þess að greiðslubyrði þeirra mundi lækka. Vandinn sem steðjar að íslenskum heimilum, mörgum hverjum skuldugum, er ekki skuldavandi heldur greiðsluvandi. Ef fjárhæðirnar sem leggjast til eiga að fara á greiðslujöfnunarhlutann og ekki hafa áhrif á greiðslubyrðina, þ.e. mánaðarlega krónutölu sem heimilin borga, telur hv. þingmaður þá ekki að það muni koma mikil vonbrigðabylgja þegar fólk áttar sig á því út á hvað þetta gengur í rauninni? Þeir sem lesa athugasemdir með frumvarpinu sjá auðvitað að það er ekki búið að skoða þetta til hlítar.